Skoðun

Tryggjum íþróttastarf fyrir fötluð börn

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Aðeins 4% fatlaðra barna eru virk í starfi hjá íþróttahreyfingunni. Þeirri stöðu verður að breyta. Eldhugar innan íþróttahreyfingarinnar og samtaka foreldra fatlaðra barna hafa tekið málið föstum tökum í verkefninu „Allir með“, sem gengur út á að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn hjá almennum íþróttafélögum. Um er að ræða þriggja ára samstarfsverkefni Íþrótta- og ólympíusambands Íslands, Ungmennafélags Íslands og Íþróttasambands fatlaðra sem styrkt er af Félags- og vinnumálaráðuneytinu, Heilbrigðisráðuneytinu og Mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Hugmyndafræði „Allir með“ gengur út á að öll börn eigi að hafa möguleika á því að taka þátt í íþróttum í nærumhverfi sínu, í samræmi við óskir sínar og þarfir. Í því skyni heldur „Allir með“ úti hvatasjóði sem styrkir íþróttafélög til að auka inngildingu fatlaðs fólks í íþróttastarfi. Að fara í gegnum almennu íþróttafélögin er lykilatriði, því mestur árangur næst ef æfingar fara fram í samfélaginu þar sem börnin búa. Öll börn vilja tilheyra sama hópi og vinirnir, klæðast búningi síns liðs og æfa í sínu íþróttahúsi.

Dæmi um viðburð sem styrkur var af hvatasjóðnum eru Íslandsleikarnir í körfubolta og fótbolta sem fram fóru nýverið í Íþróttahöllinni á Akureyri. Þar tókust 50 ungir íþróttamenn úr Haukum og Stjörnunni/Ösp á við gefandi áskoranir sem felast í að fara í fyrstu keppnisferðina, á fyrsta mótið og í fyrsta íþróttaferðalagið. Það er mikilvægt að öll börn eigi kost á að öðlast reynslu af þátttöku í íþróttum og verða sér úti um þá leikni og þroska sem maður öðlast í góðu félagsstarfi og félagsskap. Á Akureyri tók svo hópur ófatlaðra barna úr Þór/KA á móti gestunum, blandaði sér í lið með þeim og spiluðu saman. Verkefnum undir hatti „Allir með“ fjölgar hratt og forsvarsmenn þess finna fyrir miklum áhuga hjá íþróttafélögum og sveitarfélögum.

Ég var sjálfur í íþróttum sem barn og unglingur og þótti nokkuð liðtækur í grindahlaupi (enda svo sem ekki margir um hituna í þeirri grein). Ég veit því frá fyrstu hendi hve þroskandi og gefandi það er að æfa og keppa með jafningjum sínum, fara í ferðir um landið, gista á dýnum í skólastofum og kynnast öðrum krökkum. Þess eigum við að sjá til að öll börn fái að njóta, líka fötluð börn. Íþróttir eru fyrir okkur öll.

Höfundur er félags- og vinnumarkaðsráðherra




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×