Umfjöllun og viðtöl: Njarðvík - Valur 96-58 | Íslandsmeistararnir sáu aldrei til sólar Siggeir Ævarsson skrifar 8. apríl 2024 21:10 Selena Lott var stigahæst Njarðvíkurkvenna í kvöld Vísir/Anton Brink Njarðvík tók á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Njarðvík endaði í þriðja sæti en Valskonur unnu B-deildina. Leikurinn var jafn í byrjun þar sem Téa Adams fór mikinn í liði Vals en hún skoraði tólf af 17 stigum liðsins í fyrsta leikhluta. Staðan 18-17 að honum loknum og heimakonur í Njarðvík virtust ekki alveg vera mættar til leiks en það var fljótt að breytast í 2. leikhluta. Þar keyrðu Njarðvíkingar upp hraðann og keyrðu mikið inn í teiginn þar sem Valskonur voru veikar fyrir, með Ástu Júlíu á tveimur villum síðan á 4. mínútu. Villurnar á liðsfélaga hennar byrjuðu að hrannast upp og Njarðvík var komið í bónus þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum sem er algjörlega ótrúleg staðreynd og ekki til að auðvelda Valskonum lífið í vörninni. Heimakonur áttu 2. leikhluta með húð og hári. Þær skoruðu 33 stig gegn aðeins tólf frá Val. Villuvandræðin gerðu Val erfitt fyrir í vörninni og sóknarmegin háði það þeim mikið að Téa Adams fór meidd útaf um miðjan leikhlutann. Er hún á leiðinni í myndatöku vegna meiðslanna en Hjalti Þór, þjálfari liðsins, telur líklegt að hún sé ristarbrotin. Staðan 51-29 í hálfleik og Njarðvíkingar í raun búnir að gera út um leikinn á þeim tímapunkti. Þær létu þó ekki við staðar numið þar heldur byrjuðu seinni hálfleikinn á 24-0 áhlaupi og komu muninum yfir 40 stigin þegar best lét (eða verst, eftir því hvernig á málið er litið). Eftir ágæta byrjun hjá Valskonum gekk hreinlega ekkert upp í kvöld. Téa Adams kom ekki aftur inn á og þær voru í miklu basli á báðum endum vallarins. Mjög sanngjarn sigur heimakvenna staðreynd og ljóst að Hjalti Þór og hans konur í Val þurfa að fara yfir ansi margt fyrir næsta leik á Hlíðarenda. Lokatölur í Njarðvík 96-58 og sigurinn síst og stór miðað við hvernig leikurinn spilaðist eftir því sem leið á hann. Af hverju vann Njarðvík? Njarðvíkurkonur gerðu nákvæmlega það sem Rúnar Ingi þjálfari þeirra lagði upp með. Keyrðu inn í teiginn og sóttu mikið af körfum og villum. Valskonur voru flatar og orkulausar eftir ágæta byrjun og heimakonur einfaldlega númeri og stórar, jafnvel tveimur. Hverjar stóðu upp úr? Selena Lott skilaði myndarlegri þrefaldri tvennu fyrir Njarðvík. 26 stig, tíu stoðsendingar og tíu fráköst. Stigin dreifðust annars ansi myndarlega hjá Njarðvík í kvöld og allir þeir leikmenn sem komu inn á settu stig á töfluna. Hjá Val var Téa Adams með tólf stig í fyrsta leikhluta en skoraði svo ekki meira og fór út af meidd og munaði þar miklu fyrir Val sóknarlega. Eydís Eva Þórisdóttir átti góða innkomu af bekknum og var ein fárra Valskvenna með lífsmarki. Hún endaði stigahæst þeirra með 14 stig. Hvað gekk illa? Valskonum gekk illa á báðum endum vallarins í kvöld. Vörnin var hriplek í teignum og sóknarlega gekk fátt upp á löngum köflum. Brooklyn Pannell, sem hefur skorað tæp 20 stig að meðaltali í vetur var aðeins skugginn af sjálfru sér og skoraði aðeins fjögur stig. Hvað gerist næst? Njarðvíkurkonur eru sestar í bílstjórasætið í einvíginu en næsti leikur fer fram á Hlíðarenda föstudaginn 12. apríl. Rúnar Ingi: „Mögulega ein besta liðssóknarframmistaða sem ég hef séð á tímabilinu“ Rúnar var mættur með Mavericks-derru (ekki þessa að vísu) og þá gengur bara allt miklu beturVísir/Bára Dröfn Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum ánægur með að byrja úrslitakeppnina á jafn sterkum sigri og þessum í kvöld. „Það er sterkt að byrja svona vel á heimavelli í fyrsta leik í úrslitakeppni og byrja seríuna svona. Búa til sjálfstraustið í liðinu, það er rosalega mikilvægt. Svo bara frammistaðan. Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik, varnarleikurinn í öðrum leikhluta. Rosalega mikið af góðum hlutum sem við gerðum á vellinum í kvöld.“ Það gekk margt upp hjá Njarðvík í kvöld, en Rúnar taldi litlar líkur á að hans konur myndu fljúga of hátt eftir svona frammistöðu. „Við vitum að við erum ekki búnar að vinna neitt þó það sé 1-0. Þetta er bara einn leikur. Úrslitakeppnin er oft svona. Þú velur þér þínar baráttur og ferð kannski að spara orku þegar þú finnur að þetta er ekki alveg að fara að detta þín megin. Þá fer eins og það fór hjá Valskonum. Valur er með gott lið. Þær eru með góða leikmenn sem gerðu okkur erfitt fyrir í 1. leikhluta og það er margt sem ég get lagað og sem við þurfum aðeins að laga.“ „Við förum bara núna í að koma okkur niður. Ræðum þennan leik á morgun. Skoðum kannski eitthvað smá vídeó, skjótum og setjum tónlist á hérna. En bara alveg sultuslakar og við ætlum að mæta í N1 á föstudaginn og aftur mæta til að berjast meira en þær og ætlum okkur sigur.“ Njarðvík keyrði mikið inn í teig Vals í kvöld en Valskonur lentu í bullandi villuvandræðum á köflum. Rúnar hefur stundum talað um það í vetur að hans konur hafi ekki farið eftir því sem hann lagði upp með en í kvöld gekk leikplanið 100 prósent upp. „Það er eiginlega bara akkúrat teiknað og það sem ég var að biðja þær um að gera og þær gerðu það. Í öðrum leikhluta þá var þetta bara mögulega ein besta liðssóknarframmistaða sem ég hef séð á tímabilinu. Við vorum að búa til rosalega mikið af auðveldum körfum og þær voru í allskonar veseni að dekka okkur á hálfum velli.“ „Ég var mjög ánægður með hvað við vorum áræðnar, hvað við náðum að keyra upp hraðann. Vorum skynsamar inn á milli og tókum mikið af góðum ákvörðunum og það er kannski það sem ég er búinn að vera mest að leggja áherslu á. Þetta kemur allt niður á það hversu góðar ákvarðanir við tökum með boltann í höndunum og það var á mjög háu „leveli“ í dag og þá er mjög erfitt að dekka okkur.“ Subway-deild kvenna Valur UMF Njarðvík
Njarðvík tók á móti ríkjandi Íslandsmeisturum Vals í fyrsta leik liðanna í átta liða úrslitum Subway deildar kvenna í körfubolta í kvöld. Njarðvík endaði í þriðja sæti en Valskonur unnu B-deildina. Leikurinn var jafn í byrjun þar sem Téa Adams fór mikinn í liði Vals en hún skoraði tólf af 17 stigum liðsins í fyrsta leikhluta. Staðan 18-17 að honum loknum og heimakonur í Njarðvík virtust ekki alveg vera mættar til leiks en það var fljótt að breytast í 2. leikhluta. Þar keyrðu Njarðvíkingar upp hraðann og keyrðu mikið inn í teiginn þar sem Valskonur voru veikar fyrir, með Ástu Júlíu á tveimur villum síðan á 4. mínútu. Villurnar á liðsfélaga hennar byrjuðu að hrannast upp og Njarðvík var komið í bónus þegar rúmar tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum sem er algjörlega ótrúleg staðreynd og ekki til að auðvelda Valskonum lífið í vörninni. Heimakonur áttu 2. leikhluta með húð og hári. Þær skoruðu 33 stig gegn aðeins tólf frá Val. Villuvandræðin gerðu Val erfitt fyrir í vörninni og sóknarmegin háði það þeim mikið að Téa Adams fór meidd útaf um miðjan leikhlutann. Er hún á leiðinni í myndatöku vegna meiðslanna en Hjalti Þór, þjálfari liðsins, telur líklegt að hún sé ristarbrotin. Staðan 51-29 í hálfleik og Njarðvíkingar í raun búnir að gera út um leikinn á þeim tímapunkti. Þær létu þó ekki við staðar numið þar heldur byrjuðu seinni hálfleikinn á 24-0 áhlaupi og komu muninum yfir 40 stigin þegar best lét (eða verst, eftir því hvernig á málið er litið). Eftir ágæta byrjun hjá Valskonum gekk hreinlega ekkert upp í kvöld. Téa Adams kom ekki aftur inn á og þær voru í miklu basli á báðum endum vallarins. Mjög sanngjarn sigur heimakvenna staðreynd og ljóst að Hjalti Þór og hans konur í Val þurfa að fara yfir ansi margt fyrir næsta leik á Hlíðarenda. Lokatölur í Njarðvík 96-58 og sigurinn síst og stór miðað við hvernig leikurinn spilaðist eftir því sem leið á hann. Af hverju vann Njarðvík? Njarðvíkurkonur gerðu nákvæmlega það sem Rúnar Ingi þjálfari þeirra lagði upp með. Keyrðu inn í teiginn og sóttu mikið af körfum og villum. Valskonur voru flatar og orkulausar eftir ágæta byrjun og heimakonur einfaldlega númeri og stórar, jafnvel tveimur. Hverjar stóðu upp úr? Selena Lott skilaði myndarlegri þrefaldri tvennu fyrir Njarðvík. 26 stig, tíu stoðsendingar og tíu fráköst. Stigin dreifðust annars ansi myndarlega hjá Njarðvík í kvöld og allir þeir leikmenn sem komu inn á settu stig á töfluna. Hjá Val var Téa Adams með tólf stig í fyrsta leikhluta en skoraði svo ekki meira og fór út af meidd og munaði þar miklu fyrir Val sóknarlega. Eydís Eva Þórisdóttir átti góða innkomu af bekknum og var ein fárra Valskvenna með lífsmarki. Hún endaði stigahæst þeirra með 14 stig. Hvað gekk illa? Valskonum gekk illa á báðum endum vallarins í kvöld. Vörnin var hriplek í teignum og sóknarlega gekk fátt upp á löngum köflum. Brooklyn Pannell, sem hefur skorað tæp 20 stig að meðaltali í vetur var aðeins skugginn af sjálfru sér og skoraði aðeins fjögur stig. Hvað gerist næst? Njarðvíkurkonur eru sestar í bílstjórasætið í einvíginu en næsti leikur fer fram á Hlíðarenda föstudaginn 12. apríl. Rúnar Ingi: „Mögulega ein besta liðssóknarframmistaða sem ég hef séð á tímabilinu“ Rúnar var mættur með Mavericks-derru (ekki þessa að vísu) og þá gengur bara allt miklu beturVísir/Bára Dröfn Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari Njarðvíkur, var að vonum ánægur með að byrja úrslitakeppnina á jafn sterkum sigri og þessum í kvöld. „Það er sterkt að byrja svona vel á heimavelli í fyrsta leik í úrslitakeppni og byrja seríuna svona. Búa til sjálfstraustið í liðinu, það er rosalega mikilvægt. Svo bara frammistaðan. Sóknarleikurinn í fyrri hálfleik, varnarleikurinn í öðrum leikhluta. Rosalega mikið af góðum hlutum sem við gerðum á vellinum í kvöld.“ Það gekk margt upp hjá Njarðvík í kvöld, en Rúnar taldi litlar líkur á að hans konur myndu fljúga of hátt eftir svona frammistöðu. „Við vitum að við erum ekki búnar að vinna neitt þó það sé 1-0. Þetta er bara einn leikur. Úrslitakeppnin er oft svona. Þú velur þér þínar baráttur og ferð kannski að spara orku þegar þú finnur að þetta er ekki alveg að fara að detta þín megin. Þá fer eins og það fór hjá Valskonum. Valur er með gott lið. Þær eru með góða leikmenn sem gerðu okkur erfitt fyrir í 1. leikhluta og það er margt sem ég get lagað og sem við þurfum aðeins að laga.“ „Við förum bara núna í að koma okkur niður. Ræðum þennan leik á morgun. Skoðum kannski eitthvað smá vídeó, skjótum og setjum tónlist á hérna. En bara alveg sultuslakar og við ætlum að mæta í N1 á föstudaginn og aftur mæta til að berjast meira en þær og ætlum okkur sigur.“ Njarðvík keyrði mikið inn í teig Vals í kvöld en Valskonur lentu í bullandi villuvandræðum á köflum. Rúnar hefur stundum talað um það í vetur að hans konur hafi ekki farið eftir því sem hann lagði upp með en í kvöld gekk leikplanið 100 prósent upp. „Það er eiginlega bara akkúrat teiknað og það sem ég var að biðja þær um að gera og þær gerðu það. Í öðrum leikhluta þá var þetta bara mögulega ein besta liðssóknarframmistaða sem ég hef séð á tímabilinu. Við vorum að búa til rosalega mikið af auðveldum körfum og þær voru í allskonar veseni að dekka okkur á hálfum velli.“ „Ég var mjög ánægður með hvað við vorum áræðnar, hvað við náðum að keyra upp hraðann. Vorum skynsamar inn á milli og tókum mikið af góðum ákvörðunum og það er kannski það sem ég er búinn að vera mest að leggja áherslu á. Þetta kemur allt niður á það hversu góðar ákvarðanir við tökum með boltann í höndunum og það var á mjög háu „leveli“ í dag og þá er mjög erfitt að dekka okkur.“