Innlent

Lög­regla heldur spilunum þétt að sér

Árni Sæberg skrifar
Maðurinn lést í þessu sumarhúsi í Kiðjabergi.
Maðurinn lést í þessu sumarhúsi í Kiðjabergi. Vísir/Vilhelm

Lögreglan á Suðurlandi gefur ekkert upp að svo stöddu um manndráp í Kiðjabergi í Grímsnes- og Grafningshreppi um helgina. Rannsókn málsins er í fullum gangi.

Greint var frá því um helgina að lögreglu hefði borist tilkynning um klukkan 14 á laugardag um meðvitundarlausan mann í sumarhúsi í uppsveitum Árnessýslu. Þegar lögreglu bar að garði var maðurinn látinn og grunur vaknaði strax um að andlátið hefði borið að með saknæmum hætti.

Í gær var greint frá því að fjórir hefðu verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald í tengslum við andlátið. Samkvæmt heimildum fréttastofu eru mennirnir allir frá Litáen, eins og hinn látni.

Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn á Suðurlandi, segir í samtali við Vísi ekkert hægt að gefa upp um málið. Rannsókn þess sé í fullum gangi og beðið sé ýmissa gagna, meðal annars niðurstöðu krufningar. Þannig liggi til að mynda ekki fyrir hvenær maðurinn lést nákvæmlega. 

Þá segist hann ekkert geta gefið upp um tengsl milli mannanna, né hvað þeir voru að gera í sumarhúsinu. Það sé meðal þess sem rannsakað er.


Tengdar fréttir

Allir frá Litháen en tengsl liggja ekki fyrir

Lögreglan á Suðurlandi fer fram á gæsluvarðhald fram í næstu viku yfir mönnunum fjórum sem handteknir voru í gær í tengslum við andlát í sumarbústaðahverfinu Kiðjabergi. Yfirlögregluþjónn segir tengsl milli mannanna fjögurra og hins látna ekki liggja fyrir að svo stöddu.

Vilja fjóra karlmenn í gæsluvarðhald

Lögreglan á Suðurlandi óskaði í dag eftir því að fjórir karlmenn yrðu úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna rannsóknar á andláti manns á fertugsaldri í sumarbústaðabyggð í Árnessýslu. Úrskurðar Héraðsdóms Suðurlands er að vænta síðar í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×