Fótbolti

Gló­dís Perla og stöllur enn tap­lausar á toppnum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Glódís Perla fagnar með liðsfélögum sínum.
Glódís Perla fagnar með liðsfélögum sínum. @FCBfrauen

Það fær einfaldlega ekkert Þýskalandsmeistara Bayern München stöðvað í þýsku úrvalsdeild kvenna í fótbolta. Glódís Perla Viggósdóttir stóð vaktina í vörn liðsins þegar það vann Werder Bremen 3-0 í kvöld.

Glódís Perla hefur verið sem klettur í vörn liðsins á leiktíðinni en liðið hefur aðeins fengið á sig sex mörk í 19 deildarleikjum til þessa. Þá hafa varnarmenn liðsins verið duglegir við að koma sér á blað og var það hin sænska Mia Eriksson sem braut ísinn í kvöld snemma í síðari hálfleik.

Jovana Damnjanović tvöfaldaði forystu Bayern á 57. mínútu og Georgia Stanway bætti við þriðja markinu þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Gestirnir höfðu fengið vítaspyrnu þegar tæpar tuttugu mínútur voru til leiksloka en spyrna Sophie Weidauer fór forgörðum. 

Lokatölur 3-0 og lék Glódís Perla allan leikinn að venju. Eftir sigur kvöldsins er Bayern með 51 stig á toppi deildarinnar með sjö stigum meira en Wolfsburg þegar þrjár umferðir eru eftir. 

Næsti leikur liðsins er úti gegn Bayer Leverkusen og gæti Bayern tryggt sér titilinn með sigri þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×