Körfubolti

„Erfitt að vinna þá þrisvar sinnum í röð“

Siggeir Ævarsson skrifar
Lárus Jónsson fer yfir málin með sínum mönnum
Lárus Jónsson fer yfir málin með sínum mönnum Vísir/Bára Dröfn

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs frá Þorlákshöfn var hæfilega tapsár eftir 84-91 gegn Njarðvík í kvöld enda erfitt að vinna Njarðvík þrisvar í röð eins og hann benti réttilega á.

Hann vildi ekki meina að það hefði verið einhver skortur á vilja hjá hans mönnum sem reið baggamuninn í kvöld.

„Nei nei, bara jafn leikur. Þeir voru að gera aðeins nýtt og við vorum ekki að alveg ná að bregðast nægilega vel við því fannst mér. Svo er Njarðvík bara frábært lið, „erfitt að vinna þá þrisvar sinnum í röð.“

Báðum þjálfurum hefur verið tíðrætt um hversu jöfn liðin eru og lítið skilji á milli þegar upp er staðið og Lárus ræddi einnig um það eftir leikinn.

„Í rauninni er þetta kannski bara hverjir setja stóru körfurnar. Ég held að það verði svolítið þannig í leiknum á fimmtudaginn. Ég býst við naglbít svolítið eins og í kvöld. Þessi leikur var kannski aðeins minni sóknarleikur. Greinilegt að liðin eru farin að þekkja meira inn á hvort annað. Við eigum leik núna, bara komið að okkur að bregðast við.“

Þórsarar lentu í villuvandræðum undir lok leiksins en hinn bandaríski Darwin Davis gat ekki klárað leikinn eftir að hann fékk sína fimmtu villu. Það réð þó ekki úrslitum að sögn Lárusar.

„Það er náttúrulega slæmt að vera með Davis út af en við erum með nóg af mönnum. En auðvitað hefði verið betra að vera með hann inn á.“

Það er stutt í oddaleikinn og Lárus og hans menn mæta klárir í Njarðvík á fimmtudag.

„Nú er bara komið að okkur að fara yfir „teipið“, æfa á morgun og hinn og fara svo bara að spila.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×