Skoðun

Í ker eða kistu

Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Þótt það hafi aukist mikið og á eftir að aukast e.t.v. enn meira að fólk ákveði í lifanda lífi að jarðneskar leifar þess skuli brenndar verður ávallt að vera til reitur – kirkjugarður í Reykjavík sem hefur pláss fyrir kistur. Ákvörðun um hvort kista eða ker verði fyrir valinu liggur einnig oft hjá aðstandendum hins látna. Það er mat borgarfulltrúa Flokks fólksins að það megi aldrei verða skortur á grafreitum. Það hefur færst í aukana að fólk skilur eftir upplýsingar um hvað skiptir það mestu máli varðandi eigin útför. Til að geta tekið mið af vilja hins látna og létta undirbúning útfarar þurfa að liggja fyrir hreinar línur um valmöguleika.

Lengi hafa verið uppi áform um að byggja nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell en brösuglega hefur gengið síðustu misseri að fá Reykjavíkurborg til að setja verkefnið í forgang. Fyrir um fjórum árum kom fram í viðtali við forstjóra Kirkjugarða Reykjavíkurprófastdæma að grafarsvæði í Reykjavík myndu brátt klárast og ekki verði til skiki fyrir grafir í Reykjavík og að leita verði á náðir Kópavogsbæjar til að fá pláss þegar tilvistinni á þessari jörðu lýkur. Ástæðan er sú að borgar- og skipulagsyfirvöld hafa dregið að fullklára nýjan kirkjugarð við Úlfarsfell.

Í kjölfar viðtalsins og til að vekja athygli á málinu lagði borgarfulltrúi Flokks fólksins fram tillögu á fundi skipulags- og samgönguráðs um að hefja framkvæmdir nýs kirkjugarðs við Úlfarsfell hið fyrsta. Ekki tókst að ýta við borgaryfirvöldum þá. En nú hefur verið samþykkt að taka næsta skref sem felst m.a. í móttöku moldar á væntanlegum kirkjugarði í Úlfarsfelli. Það er fagnaðarefni að drífa á þetta verkefni af stað til þess að valið um að vera settur í ker eða kistu standi ávallt til boða þegar þessari jarðvist lýkur.

Höfundur er oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn Reykjavíkur.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×