Þetta kemur fram í frétt Göteborgs-Posten í morgun. Þar segir að hver á sem reynir að koma palestínskum fána eða skilti með pólitískum boðskap inn í höllina verði stöðvaður við innganginn.
Samkvæmt reglum eru fánar þeirra landa sem keppa í Eurovision leyfðir í höllinni. Ein undantekning sé á þessu, það er regnbogafáninn, þar sem hann sé ekki notaður í pólitískum tilgangi.
Búið er að sækja um leyfi fyrir tugi mótmælafunda í Malmö á meðan á Eurovision-vikunni stendur og segir í frétt GP að ákvörðunin um að banna palestínska fánann í Eurovision-höllinni sé tilraun skipuleggjenda til að hafa keppnina eins ópólitíska og mögulegt sé.
Palestínski fáninn hefur ítrekað komið við sögu Eurovision-keppninnar í þeim tilgangi að mótmæla þátttöku Ísraela í Eurovision og aðgerða Ísraela gegn palestínsku þjóðinni. Sjaldan hefur mótmælaaldan verið meiri en í ár vegna stríðsreksturs Ísraela á Gasa.
Árið 2019 kom palestínski fáninn í tvígang fyrir í útsendingu þar sem liðsmenn Hatara tóku upp palestínska fánann í græna herberginu þegar myndavélin var á þeim. Lauk því máli með að Ríkisútvarpið var sektað um fimm þúsund evrur.
Sama ár var einn af dönsurunum í atriði bandarísku söngkonunnar Madonnu, sem stóð fyrir atriði á meðan á símaatkvæðagreiðslu stóð, með palestínskan fána á bakinu.
Hera Björk verður fulltrúi Íslands í Eurovision í ár þar sem hún mun flytja lagið Scared of Heights.