Handbolti

PSG tókst ekki að leika ó­trú­lega endur­komu Kiel eftir

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Rune Dahmke fagnar með aðdáendum Kiel í leikslok.
Rune Dahmke fagnar með aðdáendum Kiel í leikslok. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Kiel sneri gengi sínu við og tryggði sér sæti í Final Four, undanúrslitum Meistaradeildarinnar í handbolta. PSG reyndi en tókst ekki að leika endurkomuna eftir í einvígi sínu gegn Barcelona. 

Montpellier HB vann fyrri leikinn gegn Kiel með níu mörkum, 39-30, en Kiel sneri gengi sínu við í seinni leiknum og vann með tíu mörkum 31-21, einvígið samanlagt 61-60. 

Leikurinn var jafn og spennandi fyrst um sinn en fljótlega tóku heimamenn völdin og héldu til hálfleiks með fimm marka forystu, 17-12. Þannig hélst munurinn milli liðanna fram í miðjan seinni hálfleik en á lokamínútum múraði Kiel fyrir markið og skoraði grimmt úr sínum sóknum. 

Tomas Mrkva varði vel í markinu, 12 skot af 29 (41,4%). Eric Johansson endaði markahæstur með 8 mörk úr 11 skotum. 

Barcelona vann fyrri leikinn með átta mörkum og var því í nokkuð þægilegri stöðu þegar liðið tók á móti PSG í kvöld. Börsungar unnu leikinn að endingu 32-31. 

Líkt og í fyrri leik liðanna lentu Börsungar ekki í neinum teljandi vandræðum. Gestirnir frá París áttu erfitt með að verjast hröðum áhlaupum Börsunga sem skoruðu níu mörk úr hraðaupphlaupum í fyrri hálfleik. 

Gestunum gekk öllu betur í seinni hálfleik en tókst ekki að fella feykisterkt lið Barcelona sem vann einvígið samanlagt 62-53. 

Auk Kiel og Barcelona hafa Magdeburg og Aalborg tryggt sér sæti í Final Four undanúrslitunum sem fara fram í Köln helgina 8.–9. júní.


Tengdar fréttir

Kielce kærir leikinn gegn Magdeburg

Kielce hefur kært leikinn gegn Magdeburg í átta liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í gær. Póllandsmeistararnir voru afar ósáttir við dómgæsluna undir blálok leiksins.

Bjarki Már og fé­lagar úr leik

Álaborg sló í kvöld Veszprém út í Meistaradeild karla í handbolta. Danirnir unnu leikinn með fimm marka mun, 33-28. og einvígið þar með fjögurra marka mun þar sem Veszprém vann fyrri leikinn með aðeins eins marks mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×