Lífið

Clooney mælti með hand­töku Netanyahu

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
George og Amal Clooney saman á góðri stundu.
George og Amal Clooney saman á góðri stundu. David Livingston/Getty

Amal Clooney er ein þeirra sérfræðinga sem mælti með því við sérstakan saksóknara á vegum Alþjóðaglæpadómstólsins að gefin yrði út handtökuskipun á hendur Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels auk leiðtoga Hamas samtakanna.

Þetta kemur fram í umfjöllun AP fréttastofu en Amal Clooney er reynslumikill lögfræðingur á sviði mannréttinda og auk þess eiginkona George Clooney Hollywood leikara. Clooney greinir frá sjálf frá aðkomu sinni að handtökuskipuninni á vefsiðu sinni.

Beiðni um handtökuskipunina var lögð fram í gær en um tvo mánuði tekur að ákveða hvort dómstóllinn muni verða við henni. Netanyahu gagnrýndi beiðnina harðlega í gær og sagði það óásættanlegt að vera lagður undir sama hatt og leiðtogar Hamas liða. Þúsundir almennra borgara hafa látið lífið á Gasa vegna hernaðs Ísraela undanfarna mánuði.

Í tilkynningu frá Clooney segir að hún auk annarra sérfræðinga hafi verið sammála um að leggja það til að handtökuskipunin yrði gefin út. „Ég sinnti þessari ráðgjöf vegna þess að ég trúi á réttarríkið og nauðsyn þess að vernda líf almennra borgara,“ segir Amal Clooney.

„Lögin sem vernda borgara í stríði voru sett fyrir meira en hundrað árum og eiga við um öll lönd í heimi óháð því hvaða ástæður liggja að baki átakanna,“ segir Clooney ennfremur. Fram kemur í frétt AP að Ísrael eigi ekki aðild að Alþjóðaglæpadómstólnum og því þurfi ísraelsk stjórnvöld ekki að framvísa Netanyahu til dómstólsins verði skipunin gefin út. Það kynni þó að gera forsætisráðherranum erfitt fyrir að ferðast liggi handtökuskipun fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×