Hlutafjárútboðinu lauk klukkan fjögur í dag.
Í yfirlýsingu frá forsvarsmönnum félagsins segir að vel á þriðja þúsund manna hafi tekið þátt í útboðinu og skráð sig fyrir hlutum að verðmæti um átta milljarða króna.
Davíð Torfi Ólafsson, forstjóri Íslandshótela, segir markaðsaðstæður hafa verið erfiðar að undanförnu þær hafi ekki orðið auðveldari.
„Efnahagsumhverfið er erfitt, markaðir þungir og vaxtastig hátt, en okkur þótti samt rétt í ljósi mikils áhuga á félaginu að athuga með skráningu á þessum tímapunkti. Niðurstaðan er hins vegar sú að hluthafar og stjórn hafa tekið þá ákvörðun að falla frá útboði og skráningu.“
Allir fastráðnir starfsmenn Íslandshótela áttu að fá hluti í félaginu að gjöf. Alls áttu 632 starfsmenn að fá hlutabréf sem hefðu, miðað við lágmarksgengið fimmtíu krónur á hlut, að mestu verið um hálfrar milljónar króna virði.