Það er langt því frá sjaldgæft að fótboltabullur berjist sín á milli fyrir utan eða jafnvel inni á leikvöngum en slagsmálin í gær áttu sér stað 40 kílómetra frá leikvanginum.
Leikurinn fór fram á Pierre-Mauroy, heimavelli Lille, og stuðningsmenn beggja liða þurftu því að ferðast töluverða leið til að koma sér á staðinn.
Svo vildi til að rúturnar sem ferjuðu Ultras stuðningsmannahópa liðanna mættust í tollhliði á leið á völlinn.

Stuðningsmenn stukku út úr rútum og réðust hvor á annan. Samkvæmt lögregluskýrslu voru um 100 manns sem slógust, kveikt var í einni rútu og fjórar aðrar rútur stórskemmdust. 20 slösuðust, þar af 8 lögreglumenn.
Svo fór að PSG bar sigur úr býtum, 2-1, og hampaði franska bikarnum í fimmtánda sinn.