Enski boltinn

UEFA gæti fært United í Sambandsdeildina

Valur Páll Eiríksson skrifar
United fékk sæti í Evrópudeildinni með bikarsigri helgarinnar.
United fékk sæti í Evrópudeildinni með bikarsigri helgarinnar. Michael Regan/Getty Image

Yfirmenn hjá Ineos sem fer með stjórn Manchester United eftir kaup Jim Ratcliffe á stórum hluta í félaginu eru þess fullvissir að félagið geti keppt í Evrópudeildinni á næstu leiktíð. Nice frá Frakklandi, sem einnig er í eigu Ineos, er í sömu keppni.

Reglur UEFA segja til um að tvö lið með sömu stjórn megi ekki taka þátt í sömu keppni á vegum sambandsins. Manchester United vann sér inn keppnisrétt í Evrópudeildinni með sigrinum í ensku bikarkeppninni um helgina og Nice mun taka þátt í sömu keppni vegna lokastöðu sinnar í frönsku deildinni.

Ineos, sem er í eigu Jim Ratcliffe, keypti tæplega 28 prósentu hlut í United í vor og fer með stjórn knattspyrnumála hjá félaginu. Ineos hefur átt Nice síðan 2019.

Fjöldaeign sömu eignarhaldsfélaga á mismunandi knattspyrnuliðum hefur aukist mjög síðustu ár. Þetta hefur valdið vandræðum varðandi Evrópukeppnir en félögin sem við eiga þurfa þá að sýna UEFA skilmerkilega fram á að þeim sé ekki stýrt af sömu aðilum.

Belgíska félagið Union Saint-Gilloise þurfti til að mynda að breyta sínum eigenda strúktúr í fyrra svo liðið mætti spila í Evrópudeildinni ásamt Brighton frá Englandi, en bæði eru í eigu Tony Bloom.

Aston Villa frá Englandi og Vitoria Guimaraes lentu í því sama í Sambandsdeildinni síðasta sumar.

Þá er útlit fyrir að City Football Group, sem á meirihluta í bæði Manchester City og Girona frá Spáni, muni þurfa að sýna frá á slíkt hið sama í sumar þar sem bæði félög verða í Meistaradeild Evrópu.

  • Félög í eigu City Group
  • Manchester City (England)
  • New York City (Bandaríkin)
  • Melbourne City (Ástralía)
  • Yokohama J Marinos (Japan)
  • Girona (Spánn)
  • Montevideo City Torque (Úrúgvæ)
  • Sichuan Jianiu (Kína)
  • Mumbai City (Indland)
  • Lommel (Belgía)
  • Troyes (Frakkland)
  • Palermo (Ítalía)
  • EC Bahia (Brasilía)
  • Club Bolivar (Bólivía)

Ineos mun þurfa að sanna fyrir UEFA í sumar að enga hagsmunaárekstra sé um að ræða milli félaganna tveggja. Ellegar mun Manchester United vera fært niður í Sambandsdeildina. Það er vegna þess að United lenti neðar í ensku úrvalsdeildinni, í 8. sæti, en Nice gerði í þeirri frönsku, í 5. sæti.

Við erum meðvituð um stöðu beggja liða og erum í beinum samskiptum við UEFA. Við erum þess fullviss að við finnum leið fram á við þegar kemur að Evrópu á næstu leiktíð, hefur breska ríkisútvarpið, BBC, eftir talsmanni Ineos.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×