Innlent

Vill sjá leið­toga á Norður­löndunum en ekki aumingja og gungur

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Dr. Gilbert sagði að skelfingarástandið á Gasa, sem hefur nú varað í fleiri mánuði, til marks um fullkomið niðurbrot alþjóðakerfisins.
Dr. Gilbert sagði að skelfingarástandið á Gasa, sem hefur nú varað í fleiri mánuði, til marks um fullkomið niðurbrot alþjóðakerfisins. Vísir/Arnar

Dr. Mads Gilbert, heimsþekktur norskur læknir sem hefur unnið í fleiri áratugi á Gasa, á þá von í brjósti að stjórnvöld á Íslandi og í Noregi taki höndum saman og þrýsti með þýðingarmiklum hætti á stjórnvöld í Ísrael.

Hann segir afstöðu stjórnvalda annars vegar til framgöngu Rússa og hins vegar til framgöngu Ísraels vera tvískinnung og að nú verði þau að breyta um kúrs ef þau vilji ekki vera samsek Ísrael og taka upp viðskiptaþvinganir.

Fréttamaður hitti Dr. Gilbert í Grjótaþorpinu í gær en hann er staddur hér á landi á vegum félagsins Ísland-Palestína. Hann hélt í gærkvöldi fyrirlestur í Háskólabíói um stöðuna á Gasa en heldur síðan norður til Akureyrar til að halda annan fyrirlestur í menningarhúsinu Hofi en hann er á dagskrá á morgun.

Dr. Gilbert reyndi að komast inn á Gasa eftir 7. október til að hjálpa óbreyttum borgurum en Ísraelsmenn hleyptu honum ekki inn. Hann sagði að fréttamaður þyrfti að spyrja stjórnvöld í Ísrael um ástæðuna en hann sjálfur telur að þau vilji ekki hafa fólk á Gasa sem muni segja frá því sem fyrir augu ber og vísar í þann fjölda blaðamanna sem hafa verið drepnir á Gasa.

Svelt til bana

Dr. Gilbert sagði að skelfingarástandið á Gasa, sem hefur nú varað í fleiri mánuði, til marks um fullkomið niðurbrot alþjóðakerfisins og þau öryggisnet sem byggð eru inn í kerfin til að grípa óbreytta borgara hafi augljóslega ekki haldið.

Dr. Gilbert finnst stjórnvöld á Norðurlöndunum ekki hafa verið nálægt nógu afdráttarlaus gagnvart stjórnvöldum í Ísrael og að sú afstaða endurspegli ekki vilja íbúanna.Vísir/Arnar

„Fólk er svelt til bana. Það hefur ekkert vatn, það fær ekki læknishjálp. Þeir hafa sprengt og eyðilagt spítala og allt heilbrigðiskerfið á Gasa. Árið 2024? Með stuðningi ESB og Bandaríkjanna? Hvað er þetta? Þetta er gríðarlegur siðferðisbrestur fyrir Vesturlönd og okkur öll. Þetta er árás á öryggi okkar og varnir sem óbreyttra borgara frá alþjóðasamfélaginu eins og það er skilgreint af Sameinuðu þjóðunum. Þetta er algjörlega hrunið.“

Að minnsta kosti fimmtíu Gasabúar voru drepnir í árás Ísraelshers á tjaldbúðir í Rafah-borg á sunnudag þar sem eldur kviknaði og um tvö hundruð særðust.

„Mörg þeirra brunnu til bana. Hvað er þetta? Börn, konur, barnshafandi konur, aldraðir og sjúklingar. Þeim er slátrað dag eftir dag.“

Líkt og greint var frá í upphafi er Dr. Gilbert Norðmaður en Noregur, Spánn og Írland tilkynntu fyrir helgi að þau hygðust viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki en hvaða þýðingu hefur það?

„Það gleður mig að vera á Íslandi sem var fyrsta norræna ríkið og eitt af þeim fyrstu í heiminum til að viðurkenna Palestínu sem ríki. Ég tel það hafa pólitíska þýðingu en þetta verður að hafa eftirfylgni.“

Hann var þá hugmynd undir utanríkismálanefnd þingsins í gær um að Ísland og Noregur hefðu „norrænt frumkvæði“ í því að beita stjórnvöld í Ísrael alvöru þrýstingi.

„Ég vona að íslensk stjórnvöld hafi samband við norsk stjórnvöld til að eiga þetta norræna frumkvæði til að koma á tafarlausu vopnahléi og tafarlausri opnun Gasa, því ef við gerum það ekki erum við samsek.“

Dr. Gilbert finnst stjórnvöld á Norðurlöndunum ekki hafa verið nálægt nógu afdráttarlaus gagnvart stjórnvöldum í Ísrael og að sú afstaða endurspegli ekki vilja íbúanna.

„Ég held að almenningur á Norðurlöndunum, sérstaklega í Noregi og á Íslandi, hafi talað mjög skýrt. Sjáið bara þátttökuna í mótmælum, sjáið skoðanakannanirnar. Meirihluti Norðmanna vildi reka Ísrael úr Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva og þannig sniðganga það. Stjórnvöld verða að vera samstíga almenningi. Þau verða að endurspegla skoðanir og vilja fólksins og hafa forystu en ekki vera aumingja og gungur sem hlýða utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna og Pentagon í því hvað þau segja og meina.“


Tengdar fréttir

Hryllingur í Rafah eftir hefndaraðgerðir

Að minnsta kosti 35 voru drepnir í árásum Ísraela á Rafah-borg í suður-Gaza. Loftárásirnar eru hefndaraðgerðir Ísraela eftir að Hamas-samtökin gerðu fyrstu eldflaugaárásir síðan í janúar á Tel Aviv í morgun. Myndbönd á samfélagsmiðlum sýna mikinn hrylling.

Yazan bíður enn svara

Algjör óvissa er enn í máli tólf ára palestínsks drengs, með hrörnunarsjúkdóm, sem senda á úr landi. Tæpar þrjár vikur eru síðan stoðdeild ríkislögreglustjóra heimsótti drenginn og foreldra hans til að undirbúa brottflutning en óskað hefur verið eftir endurupptöku málsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×