Fótbolti

„Ó­verð­skuldað stig sem Víkingar fara með af Kópavogsvelli“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Halldór Árnason á hliðarlínunni í kvöld.
Halldór Árnason á hliðarlínunni í kvöld. Vísir/Diego

„Ég er bara mjög stoltur af frammistöðunni og því sem menn lögðu í leikinn,“ sagði Halldór Árnason, þjálfari Breiðabliks, eftir 1-1 jafntefli liðsins gegn Víkingum í kvöld.

„Það var alvöru hjarta og barátta og trú og hugrekki í þessu. Þetta er bara mjög óverðskuldað stig sem Víkingar fara með af Kópavogsvelli í kvöld.“

Hann segir einnig að það hafi eðlilega verið súrt að fá á sig jöfnunarmark í uppbótartíma.

„Ég er aðallega ósáttur með það að allar þeirra aðgerðir alveg þangað til í uppbótartíma voru mjög þvingaðar og mikið af löngum boltum sem við ráðum vel við. Við föllum bara of neðarlega í blálokin og þá er auðvitað hætta á að þetta gerist.“

„Við buðum svolítið hættunni heim en það er ekkert óeðlilegt við það að Víkingur fái eitt færi á 90 mínútum. Því miður kom það í blálokun og þeir nýttu það.“

Hann segist þó vera ánægður með varnarleik sinna manna í kvöld.

„Ég er bara gríðarlega ánægður með varnarleikinn. Mér fannst við hafa góða stjórn á öllum okkar aðgerðum bæði sóknar- og varnarlega á meðan mér fannst þeirra aðgerðir allar vera þvingaðar. Þeir fóru í hluti sem þeim leið illa með og skiluðu litlu fyrir þá.“

„Heilt yfir spiluðum við góðan leik.“

Þó er alltaf eitthvað sem má bæta.

„Sóknarlega vorum við kannski stundum að gefa boltann og fljótt eða klaufalega frá okkur. Þeir eru mjög aggressívir og spila hátt. Við fengum góðar stöður til að fara í gegn.“

„Kannski gátum við farið aðeins meira innfyrir þá, en ég tel allavega að frammistaðan hafi verið þannig að hún verðskuldaði meira en eitt stig.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×