Skoðun

Ráð­herrar hafa á­hyggjur af vald­beitingu

Tómas Ingvason skrifar

Á fréttamiðlum í gær mátti lesa að ráðherra í ríkisstjórn Íslands telur mikilvægt að farið sé vandlega yfir verkferla þegar lögregla beitir valdi gegn borgurum landsins. Þetta kemur í kjölfar þess að nokkrir kjósendur hans fengu yfir sig piparúða þegar þeir mótmæltu fyrir utan ríkisstjórnarfund. Ráðherran segist nú hafa gefið út fyrirmæli til ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis að fara ætti yfir verkferla og ákvarðanir lögreglu í svona málum.

Það er gott þegar kjörnum fulltrúum okkar stendur ekki á sama um fólkið í landinu. Það eru hinir kjörnu fulltrúar sem eiga að gæta að hagsmunum almennings og tryggja að valdinu sé ekki gefinn laus taumurinn gegn sínum eigin borgurum. En þess vegna velti ég fyrir mér, afhverju er ekki farið yfir ferla þegar fólk deyr í fangelsum? Afhverju er ekki farið yfir ákvarðanir lögreglu þegar ungir drengir eru frelsisviptir án dóms og laga og settir inn á Litla hraun í kjölfar ásakana sem ekki hafa verið rannsakaðar? Er það ekki rannsóknarefni í sjálfu sér?

Drengurinn minn grátbað um hjálp vegna andlegrar líðan sinnar þegar hann var lokaður inni í klefa á hrauninu. Hjálpina var hvergi að fá og daginn eftir var hann allur.

Pólitíkin er söm við sig. Vinstri sinnaður ráðherra kallar auðvitað eftir rannsókn þegar hans eigið fólk verður fyrir piparúða (vegna óláta). Þetta er fólkið sem ráðherrann vill halda sem stuðningsmönnum sínum áfram.

En hvað vill ráðherrann gera fyrir fanga, fíkla og aðstandendur þeirra? Sem faðir tveggja drengja sem báðir hafa tapað sinni lífsbaráttu í þessu kerfi verð ég að lýsa yfir miklum vonbrigðum með okkar kjörnu fulltrúa. Stjórnmálamenn sem í orðu kveðnu segjast vera fulltrúa mannúðar og réttlætis en láta grafalvarlegt ástand í málefnum fanga og fíkla sér í léttu rúmi liggja ættu að íhuga erindi sitt vel og vandlega. Það er í það minnsta mín skoðun.

Höfundur er pabbi hans Ingva Hrafns Tómassonar sem tók líf sitt inni á Litla-Hrauni 5.5.2024.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×