Innlent

Elds­voði í bíl­skúr í Kópa­vogi

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Vísir/Vilhelm

Fjórir slökkvibílar og þrír sjúkrabílar voru kallaðir út upp úr klukkan tíu í dag vegna eldsvoða í Vatnsendahvarfi í Kópavogi. Vel gekk að ráða niðurlögum eldsins en slökkvistarf tók innan við klukkutíma.

Þetta staðfestir Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, í samtali við Vísi. Lárus tekur fram að engan sakaði í eldsvoðanum og að ekki hafi þurft að flytja neinn íbúa með sjúkrabíl frá vettvangi. 

Að sögn Lárusar kom eldsvoðinn upp í bílskúr hússins en hann tekur þó fram að upptök eldsvoðans séu enn á huldu. Þó nokkrar skemmdir eru í bílskúrnum en lukkulega dreifðist eldurinn ekki um húsið. Lárus bendir á að eldurinn hafi verið heldur lítill þó að umtalsverður reykur hafi stafið frá honum.

Reykurinn dreifðist um húsið og urðu einhverjar reykskemmdir á húsinu. Lárus tekur fram að slökkviliðið hafi reykræst húsnæðið. „Við vorum enga stund að slökkva í þessu og allir sjúkrabílarnir voru sendir í burtu þegar við komum á vettvang,“ segir Lárus. 

Veistu meira um málið? Áttu myndir frá vettvangi? Sendu okkur myndir á ritstjorn@visir.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×