Körfubolti

Jóhann Árni til Hattar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jóhann Árni Ólafsson handsalar samninginn við Hött.
Jóhann Árni Ólafsson handsalar samninginn við Hött. stefán árni pálsson

Jóhann Árni Ólafsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Hattar í körfubolta við hlið Viðars Arnar Hafsteinssonar.

Jóhann tekur við starfinu af Einari Árna Jóhannssyni sem stýrði Hetti með Viðari í þrjú ár. Á síðasta tímabili komst liðið í fyrsta sinn í úrslitakeppnina þar sem það tapaði fyrir Val, 3-1.

Jóhann var aðstoðarþjálfari Grindavíkur á síðasta tímabili. Liðið komst alla leið í úrslit um Íslandsmeistaratitilinn þar sem það tapaði fyrir Val í oddaleik, 3-2.

Höttur hefur leikið í Subway deildinni undanfarin tvö tímabil. Á þarsíðasta tímabili endaði liðið í 9. sæti og komst í undanúrslit bikarkeppninnar og á nýafstöðnu tímabili lentu Héraðsbúar í 8. sæti og komust í úrslitakeppnina eins og áður sagði.

Jóhann hefur þjálfað hjá Grindavík undanfarin ár. Hann lék áður með liðinu og varð Íslandsmeistari með því. Jóhann varð einnig Íslandsmeistari með uppeldisfélaginu Njarðvík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×