Fótbolti

Þór­dís skoraði annan leikinn í röð og yfir­burðir Rosengård al­gjörir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þórdís Elva Ágústsdóttir gekk í raðir Vaxjö frá Val í vetur.
Þórdís Elva Ágústsdóttir gekk í raðir Vaxjö frá Val í vetur. vísir/vilhelm

Þórdís Elva Ágústsdóttir var á skotskónum fyrir Vaxjö, annan leikinn í röð, þegar liðið vann 1-2 útisigur á Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í dag.

Þórdís var í byrjunarliði Vaxjö og jafnaði metin í 1-1 þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Sigurmark Vaxjö kom svo á 57. mínútu.

Bryndís Arna Níelsdóttir var fjarri góðu gamni hjá Vaxjö sem er í 7. sæti deildarinnar með þrettán stig. Þetta var fyrsti sigur liðsins síðan 4. maí.

Guðrún Arnardóttir var á sínum stað í vörn Rosengård sem átti ekki í neinum vandræðum með að leggja Norrköping að velli, 4-0.

Þetta var níundi sigur Rosengård í fyrstu níu umferðunum og liðið er með átta stiga forystu á toppi deildarinnar.

Guðrún hefur leikið einkar vel í vörn Rosengård sem hefur haldið hreinu í sjö af níu leikjum sínum á tímabilinu.

Kristín Dís Árnadóttir og Hafrún Rakel Halldórsdóttir komu báðar inn á eftir klukkutíma þegar Bröndby sigraði Fortuna Hjörring, 1-2, í dönsku úrvalsdeildinni.

Þetta var þriðji sigur Bröndby í síðustu fjórum leikjum en liðið er með eins stigs forskot á toppi deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×