Handbolti

Telur sig eiga heima í ís­lenska lands­liðinu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Orri Freyr og félagar voru óstöðvandi á nýafstaðinni leiktíð.
Orri Freyr og félagar voru óstöðvandi á nýafstaðinni leiktíð. Sporting

Orri Freyr Þorkelsson, leikmaður Sporting í Portúgal, telur sig eiga heima í íslenska landsliðinu í handbolta.

Orri Freyr er að koma úr sannkölluðu draumatímabili þar sem Sporting vann þrennuna heima fyrir, það er deild, bikar og deildarbikar. Orri Freyr hefur verið inn og út úr leikmannahópnum hjá landsliðinu en var valinn í síðasta verkefni og lét heldur betur til sín taka þá. Orri Frey ræddi við Stefán Árna Pálsson um stöðu sína í landsliðinu í Sportpakka Stöðvar 2 Sport.

„Ég hef mikla trú á því. Ég er búinn að vera spila ótrúlega vel á þessu tímabili, það er ekkert smá gaman. Ég er mjög ánægður með að hafa komist inn í hópinn í síðasta verkefni, það gekk vel.“

„Snorri (Steinn Guðjónsson, landsliðsþjálfari) velur hópinn og ég ber virðingu fyrir hans vali en ég vona allavega að ég verði áfram í þessu liði. Mun gera allt sem ég get til að halda áfram að spila vel með Sporting og ég vill vera í íslenska landsliðinu, tel mig klárlega hafa getuna til að spila þar.“

Ásamt Orra Frey spilar Stiven Tobar Valencia með Benfica í Portúgal og Þorsteinn Leó Gunnarsson er á leiðinni til Porto.

„Við Stiven búum nálægt hvor öðrum og höfum verið í góðu sambandi og gaman að hafa hann hérna. Porto er svolítið í burtu en gaman að það sé Íslendingar að koma hingað.“

„Eins og staðan er vill ég bara vera hér. Að sjálfsögðu vorum við náttúrulega að klára þetta [tímabil] og miklar tilfinningar sem fylgja því. Ég er rosalega ánægður hér og við þurfum bara að sjá hvað gerist í framtíðinni,“ sagði Orri Freyr að endingu aðspurður hvort hann væri að horfa á að spila í þýsku úrvalsdeildinni en sú er talin sú sterkasta í heimi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×