Handbolti

„Ætlum að byggja upp til fram­tíðar“

Runólfur Trausti Þórhallsson og Ágúst Orri Arnarson skrifa
Aðalsteinn er nýráðinn yfirmaður handknattleiksmála og aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Víkingi.
Aðalsteinn er nýráðinn yfirmaður handknattleiksmála og aðalþjálfari meistaraflokks karla hjá Víkingi. vísir / sigurjón

Handknattleiksþjálfarinn Aðalsteinn Eyjólfsson er fluttur heim til Íslands eftir tæplega tveggja áratuga dvöl erlendis til að taka við liði Víkings.

Aðalsteinn er gríðarlega reynslumikill og hefur undanfarin átján ár stýrt liðum í efstu deildum Þýskalands og Sviss. Hann tekur við nú starfi aðalþjálfara meistaraflokks karla hjá Víkingi sem og hann verður yfirmaður handknattleiksmála.

„Hlakka til að takast á við nýtt verkefni. Skemmtilegt að koma í gróskuríkt félag eins og Víking. Ég sé fyrst og fremst tækifæri fyrir Víking á þessu svæði sem Víkingur er, bæði hérna niðri í Fossvogi og svo þetta gamla Fram hverfi.“

„Hér hafa orðið til margir af okkar fremstu handboltamönnum í gegnum tíðina, bæði karla og kvennaflokki. Ég tel afskaplega mikilvægt fyrir handboltann í heild sinni að hér sé gott starf og að við höldum áfram að rækta þennan akur sem þessi hverfi hafa boðið handboltanum í gegnum tíðina.“

Það er ákveðið stökk að fara frá stórum atvinnumannaklúbbum erlendis og taka við liði í næstefstu deild á Íslandi.

„Ég ætla að koma inn með ákveðið skipulag og ákveðinn aga. Ætla að vinna hlutina svolítið eins og ég er vanur að gera þá. Ætla að reyna fá fólk með mér og það hefur verið rauður þráður í okkar samtali, Víkings og mín, að virkja þann mannauð sem er í félaginu.“

Stefna Aðalsteins er skýr og mun hann vinna eftir sama skipulagi og hann hefur alltaf gert.

„Það er að bæta einstaklinginn, koma með ákveðna hugmyndafræði og ákveðinn skóla sem maður vill framfylgja. Vinna í því að bæta leikmenn og liðið sjálft, ætlum að byggja upp til framtíðar og vitum að það er mikið verk framundan. Ætlum að byrja á hugmyndafræðinni og búa til ákveðinn skóla sem ég tel vera líklegan til árangurs,“ sagði Aðalsteinn að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×