Erlent

Í­huga að virða tíma­móta­dóm að vettugi

Kjartan Kjartansson skrifar
Nokkrar konur úr hópnum sem stefndi svissneska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum og hafði sigur í vor.
Nokkrar konur úr hópnum sem stefndi svissneska ríkinu fyrir Mannréttindadómstól Evrópu fyrir aðgerðaleysi í loftslagsmálum og hafði sigur í vor. Vísir/EPA

Neðri deild svissneska þingsins greiðir atkvæði um tillögu um að stjórnvöld hunsi tímamótadóm Mannréttindadómstóls Evrópu um að þau yrðu að gera meira til þess að draga úr hnatttrænni hlýnun. Þingmenn saka dómstólinn um inngrip í innri málefni landsins.

Mannréttindadómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að svissnesk stjórnvöld hefðu troðið á mannréttindum eldri kvenna með aðgerðarleysi í loftslagsmálum í apríl. Það var fyrsti dómur alþjóðadómstóls í máli sem tengdist loftslagsbreytingum af völdum manna.

Efri deild svissneska þingsins samþykkti þingsályktun fyrr í þessum mánuði þar sem þingdeildin gagnrýndi dómstólinn og fullyrti að engin ástæða væri til að gera meira í loftslagsmálum, að því er segir í frétt Reuters-fréttastofunnar.

Stærsti flokkur landsins, Svissneski lýðflokkurinn (SVP), segist ætla að styðja ályktunina sem liggur fyrir í neðri deildinni. Umhverfisráðherra landsins hefur einnig gert lítið úr þýðingu dómsins.

Ekkert aðildarríki Evrópuráðsins hefur nokkru sinni hunsað dóm Mannréttindadómstólsins. Isabela Keuschnigg, fræðimaður við Hagfræðiskólann í London (LSE), segir að það setti slæmt fordæmi ef svissnesk yfirvöld leiddu dóminn hjá sér. Það græfi undan löglegu eftirliti með lýðræðislegum stjórnarháttum.

„Ákveðin ríki munu reyna að vísa til tregðu Sviss og segja: „Ef Sviss fylgir ekki [dómi], af hverju ættum við að gera það,“ segir Helen Keller, svissneskur fyrrverandi dómari við Mannréttindadómstólinn.

Sérfræðingar segja þó ekki óvanalegt að það taki ríki langan tíma að framfylgja dómum Mannréttindadómstólsins. Það taki að meðaltali sex ár. Það geti haft verulegar pólitískar afleiðingar í för með sér fyrir ríki að hunsa dóma. Í ítrustu tilfellum gæti þau átt yfir höfði sér að vera sparkað úr Evrópuráðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×