Körfubolti

Luka ó­sáttur með dóm­gæsluna: „Aldrei komið fyrir mig áður“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Luka skoraði 27 stig í nótt.
Luka skoraði 27 stig í nótt. Tim Heitman/Getty Images

Luka Dončić var allt annað en sáttur með dómgæsluna í þriðja leik Dallas Mavericks og Boston Celtics í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfubolta. Boston vann leikinn og þarf aðeins einn sigur til viðbótar til að tryggja sér titilinn.

Leikur næturinnar var gríðarlega jafn allt fram að hálfleik en í þriðja leikhluta settu gestirnir frá Boston í fimmta gír og stungu hreinlega af. Dallas tókst hins vegar að klóra í bakkann og munurinn var kominn niður í þrjú stig þegar Luka, sem var aðeins með tvær villur þegar fjórði leikhluti hófst, var sendur af velli eftir að fá sína sjöttu villu.

Þetta var í aðeins þriðja skipti á ferli sínum í NBA sem Luka nælir sér í sex villur og er sendur í sturtu. Alls fékk hann fjórar villur á aðeins átta mínútum.

„Þetta hefur aldrei komið fyrir mig áður, ekki svo að ég muni allavega. Við máttum hreinlega ekki spila fast. Ég vil ekki segja neitt en þú veist, sex villur í úrslitum NBA,“ sagði Luka greinilega ósáttur.

Dallas var á 20-2 áhlaupi þegar sjötta villan var dæmd á Luka. Hann var talinn hafa brotið á Jaylen Brown þó svo að Jason Kidd, þjálfari Dallas, hafi mótmælt og dómarnir hafi farið í skjáinn.

„Þetta var ekki villa fyrir mér, held að enginn okkar hafi haldið að þetta væri villa,“ sagði Dereck Lively II, leikmaður Dallas.

„Mögulega hefðum við átt að áfrýja þeim öllum,“ sagði Kidd aðspurður af hverju Dallas mótmælti ekki fimmtu villunni sem Luka fékk en það var einnig eftir að hann var sagður hafa brotið á Brown.

„Við munum trúa allt til enda,“ sagði Luka að lokum en ekkert lið í sögu úrslita NBA hefur komið til baka eftir að lenda 3-0 undir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×