Þorbjörg Sigríður telur að um algjört grundvallaratriði í réttarríki sé að ræða, varðar pólitísk afskipti fjármálaráðherra af lögreglunni.
Alvarleg afskipti Sigurðar Inga af störfum lögreglu
Þorbjörg Sigríður vildi vita afstöðu Bjarna til málsins, hvort hann tæki undir með Guðrúnu Hafsteinsdóttur dómsmálaráðherra sem hefur gert athugasemdir við bréf Sigurðar Inga sem vill að lögreglan skoði nánar netsölu með áfengi.
„Aldrei þessu vant voru ráðherrar að rífast um atriði sem einhverju máli skipta. Reyndar voru ráðherrar þar að takast um algjör grundvallaratriði í siðuðum samfélögum. Um það hvort lögregla og ákæruvald geti sætt pólitískum afskiptum.“
Þorbjörg Sigríður rakti málið.
„Bréfs þar sem fjármálaráðherra bendir lögreglu á starfsemi sem kunni að fara í bága við lög. Vitneskja um þessi mál lágu hins vegar alveg fyrir. Í bréfinu minnir hann lögreglu á að í kæru sem lögregla hafi áður verið með til rannsóknar hafi tiltekin atriði ekki verið skoðuð nægilega. Sú rannsókn stendur yfir skv. Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni. Sem gerir þessi afskipti enn alvarlegri.“
Búum við í réttarríki?
Þorbjörg Sigríður segir dómsmálaráðherra eðlilega hafa stigið fram og bent á hið augljósa sem er að lögregla og ákæruvald geta aldrei lotið pólitískum afskiptum. Enginn ráðherra geti beint tilmælum til lögreglu um það að hefja rannsókn. Lögregla sjái um það og ákæruvaldið – og enginn annar.
„Þá komu viðbrögð fjármálaráðherra þar sem hann segir það áhugavert að dómsmálaráðherra hafi brugðist við bréfasendingum hans til lögreglunnar. Hann bætir raunar um betur og á honum má skilja að það hefði verið athafnaleysi hjá honum hefði hann ekki skrifað lögreglunni.“
Þorbjörg Sigríður sagði að um algjört grundvallaratriði að ræða og hún spurði Bjarna hvort hann tæki undir með Guðrúnu?
„Búum við nokkuð í landi þar sem ráðherrar telja það beinlínis skyldu sína að senda lögreglunni bréf eins og þessi – með ábendingum um mál til að skoða?“
Ráðherra rangstæður
Bjarni taldi ekkert í bréfi dómsmálaráðherra geti verið umdeilt, ekki neitt og um er um að ræða grundvallaratriði. Og hann taldi að á þinginu hlyti að vera alger samstaða um það.
„Við munum ekki líða pólitísk afskipti af ákæruvaldinu eða frumkvæði lögreglunnar.
Það breytir því ekki að það er eitthvert svigrúm fyrir ráðherra, eftir atvikum forstöðumenn stofnana, til að vekja athygli á einhverjum stöðum og það er það sem hæstv. fjármálaráðherra taldi sig vera að gera.“
Þorbjörg Sigríður steig þá aftur í pontu og sagði þetta kennslubókardæmi um pólitísk afskipti af lögreglu.
„Afskipti sem ekki er hægt að skilja öðruvísi en að ráðherra þyki tilefni til að lögregla hefji skoðun á ákveðnu máli.“
Því hvert var markmið með bréfinu annað en að ýta við lögreglunni?
„Ráðherrann er rangstæður. Og ég vona að dómsmálaráðherra sé ekki eini ráðherrann sem stendur vörð um þessar grundvallarreglur. Ráðherra sendir ekki hugleiðingu dagsins um hvern skal rannsaka.“
En hvað með afskipti Áslaugar Örnu?
En þá sneri Þorbjörg Sigríður uppá málið og benti á að þetta væri ekki í fyrsta skipti sem hefur þurft að minna á þessar grunnreglur.
„Síðast voru það símhringingar þáverandi dómsmálaráðherra beint í lögreglustjóra á aðfangadag.“
Þarna minnti Þorbjörg Sigríður á mál sem vakti verulega athygli þegar Bjarni sjálfur var gripinn innan landhelgi og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þá dómsmálaráðherra hlutaðist til um málið.
„Síðast voru það símhringingar þáverandi dómsmálaráðherra beint í lögreglustjóra á aðfangadag. Skyndilegur áhugi hafði þá kviknað á reglum um upplýsingagjöf lögreglu til fjölmiðla í kjölfar frétta um rannsókn lögreglu á ætluðum lögbrotum í Ásmundarsal, þar sem annar ráðherra hafði verið viðstaddur.
Lögreglustjóri fékk tvö símtöl beint frá dómsmálaráðherra á aðfangadag.
Forseti, ríkisstjórnin verður að hætta því að hringja í lögregluna eða senda henni bréf. Búum við ekki í réttarríki?“ spyrði Þorbjörg Sigríður.
Vill frekar ræða um netsölu á áfengi
Bjarni taldi betra að verja tímanum í hið undirliggjandi lagalega álitaefni sem er tilefni af þessum skoðanaskiptum öllum sem er að hér hefur netverslun með áfengi vaxið umtalsvert að því er virðist.
„Það eru skilaboðin sem við fáum innan úr kerfinu. Reyndar er athyglisverð staðreynd að netverslun virðist geta boðið áfengi á lægra verði en ÁTVR. Það er athyglisverð staðreynd og það hefur myndast ákveðið lagalegt tómarúm vegna þess að gömul lög tók ekki tillit til þess með hvaða hætti netverslun gæti rutt sér til rúms á þessum vettvangi.“
Bjarni sagði að því hafi Sjálfstæðismenn talað fyrir því að það væri tímabært að koma með frumvarp sem ekki hefur tekist samstaða um til að skerpa línurnar um það „hvernig menn ætli að ramma inn verslun sem færi fram í gegnum netið er lokið óundirbúnum.“
Sigmar Guðmundsson Viðreisnarmaður fór einnig í pontu og sagði að hér væri verið að ræða grundvallaratriði réttarríkis, ekki netsölu með áfengi. Og það væri sem sagt í lagi ef ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði afskipti af lögreglu en ekki þegar ráðherra Framsóknarflokksins gerði það?