Körfubolti

Þor­valdur Orri kemur aftur til KR

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Á myndinni má sjá f.v. Hjalta Má Einarsson, stjórn KR körfu, Þorvald Orra Árnason og Jakob Örn Sigurðarson, þjálfara mfl. karla.
Á myndinni má sjá f.v. Hjalta Má Einarsson, stjórn KR körfu, Þorvald Orra Árnason og Jakob Örn Sigurðarson, þjálfara mfl. karla. facebook / KR Karfa

Þorvaldur Orri Árnason er genginn til liðs við KR og mun leika með liðinu í Subway-deild karla á næstu leiktíð.

Þorvaldur heldur upp á 22 ára afmæli sitt á mánudaginn, hann er uppalinn í KR en lék á síðustu leiktíð með Njarðvíkingum. Þar lék Þorri stórt hlutverk í liði sem komst í oddaleik í undanúrslitum Subway-deildar. Þorri skilaði 15,7 stigum í leik á síðustu leiktíð.

Þorri lék í gegnum yngri flokkana með KR og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik tímabilið 2019-2020, þá 17 ára gamall. Tímabilin 2021-2022 og 2022-2023 var Þorri í lykilhlutverki hjá KR. 

Síðasta sumar var Þorri valinn í nýliðavali þróunardeildar NBA af Cleveland Charge en gekk svo til liðs við Njarðvíkinga um haustið.

"Ég er gríðarlega ánægður að Þorri sé kominn aftur heim í KR. Það er mikilvægt að okkar uppöldu KR-ingar spili með félaginu og því er það stórt að Þorri spili með okkur á næsta tímabili. Mér finnst Þorri hafa tekið miklum framförum seinustu tvö tímabil og hlakka ég til að aðstoða hann við að þróast enn frekar sem leikmaður og karakter og taka sinn leik á hærra level," sagði Jakob Örn Sigurðarson við undirritun samningsins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×