Skoðun

Fáu spáð en vel fylgst með

Ari Trausti Guðmundsson skrifar

Vangaveltur eru margar um goslok við Grindavík, landris og -sig við Svartsengi og tengsl gosvirkninnar og þriggja eldgosa við Fagradalsfjall. Grunnmæligögn eru traust, um jarðskorpuhreyfingar, rúmmálsbreytingar í geymsluhólfi kviku og efnasamsetningu hennar, bæði úr gosunum við Grindavík og Fagradalsfjall. Gögnin segja forvitnilega sögu.

Reykjanesskaginn er ungur landshluti hvað eldvirkni varðar, án þróaðra megineldstöðva, og flekaskilin þvinguð til að beygja í austur. Rekhreyfingar á skaganum verða blanda af toggliðnum á norðaustlægum sprungum og hliðrun jarðlaga á norðlægum sprungum. Svo virðist sem staðsetning gosreina á skaganum sé heldur flóknari en fyrstu líkön hafa lýst með afmörkun eldstöðvakerfa, Tengsl milli sprungukerfa og kvikumyndunarstaða eru ef til vill greiðari en annar staðar á eldvirkum svæðum landsins.

Alllengi hefur verið talið að kvika safnist fyrir næsta stöðugt undir kerfunum á mörkum möttuls og skorpu. Hún brjótist fremur reglubundið úr svonefndum kvikuþróm í endurteknum rekhrinum við samspil spennulosunar og vaxandi þrýstings kvikunnar. Kvikan treðst í skorpuna, veldur myndun (kviku)ganga, en lítill hluti hennar nær oftast að gjósa upp á yfirborð jarðar. Það getur gerst án viðstöðu hennar í skorpunni eða eftir geymsluhlé. Þá með nýmyndun kvikuhólfs, eða í kvikuhólfi af fyrra virknistímabili. Kvikuþrær eru stórar en kvikuhólf miklum mun minni.

Nýtt virknistímabil á Reykjanesskaga hófst vestan til á árinu 2019 með sprungumyndun, skjálftum og kvikuinnskotum án eldgosa fram undir vorið 2021. Stór svæðisgangur varð þá til við Fagradalsfjall. Skömmu síðar veitti Geldingadalagosið djúplægri kviku upp í löngu gosi. Hin gosin tvö við fjallið (2022 og 2023) voru stutt með kviku sömu ættar en þróaðri að innihaldi.

Þegar svo jarðvirkni færðist vestur fyrir Þorbjörn, tók kvika að safnast í þykkan, láréttan gang (sillu, þ.e. kvikuhólf) skammt frá athafnasvæðinu við Svartsengi. Kvikan barst þangað upp úr stórri kvikuþró, mögulega þeirri sömu og gaf af sér efni í gosin við Fagradalsfjall, og hún olli landrisi. Aftur varð samspil flekareks og kvikuþrýstings til þess að annar stór svæðisgangur myndaðist, nú á yfir 2.000 ára gamalli gosrein úr óróahrinu NA af Grindavík, samfara miklum skjálftum (nóvember 2023). Brátt varð eldgos þar uppfrá, í desember 2024, það fyrsta af fimm.

Fjögur fyrstu eldgosin NA við Grindavík má rekja til austurjaðarsins á sillunni (kvikuhólfinu) nálægt Svartsengi. Þaðan hljóp kvika í löngum sprungum sem logðaði stutt á, nema í fjórða gosinu (mars 2024) þegar alllengi lifði í 1-2 eldborgum. Landris og líkanreikningar leyfðu ágætar spár um atburðarás í hvert sinn. Kvikan bar þess merki að hafa staðið við í kvikuhólfinu. Henni svipar nokkuð til kviku úr stuttu gosunum við Fagradalsfjall. Fimmta gosið, sem enn stendur yfir í einni eldborg, skilar aftur á móti kviku áþekkri Geldingadalakvikunni. Þar með má telja að kvikuhólfið (sillan) við Svartsengi sé tekin að veita djúplægri kviku viðstöðulítið upp úr kvikuþró svæðisins.

Þessi breyting á kvikugerð í eldgosunum gefur varla tilefni til að spá goslokum með miklum líkum eða framhaldi eldvirkni á Grindavíkur- eða Svartsengissvæðinu. Nýtt landris yfir kvikuhólfinu myndi vissulega benda til mögulegs framhalds. Stór kvikuþróin getur séð kvikuhólfinu fyrir efni í fleiri gos á í Sundhnúksreininni en líka við vesturjarðar kvikuhólfsins, nálægt Eldvarpareininni. Hún getur einnig fóðrað núverandi gos dögum og vikum saman. Æskilegast væri að allt dytti sem fyrst í dúnalogn. Af eldgosasögunni má búast má við að stuttu eða löngu, lygnu tímabili ljúki með því að óróinn færist til vesturs eða austurs á skaganum. Sjáum hvað setur.

Höfundur er jarðvísindamaður.




Skoðun

Sjá meira


×