Neytendur

Festi fær að kaupa Lyfju

Árni Sæberg og Jón Ísak Ragnarsson skrifa
Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi.
Ásta Sigríður Fjeldsted er forstjóri Festi. Vísir/Egill

Festi og Samkeppniseftirlitið hafa undirritað sátt vegna kaupa Festi á öllu hlutafé Lyfju hf. Með sáttinni samþykkir Samkeppniseftirlitið samrunann með skilyrðum sem sett eru til að efla og vernda virka samkeppni á þeim mörkuðum sem samruninn hefur áhrif á.

Samkeppniseftirlitið hefur haft til meðferðar rannsókn á samkeppnislegum áhrifum kaupa Festi hf. á öllu hlutafé Lyfju hf., frá því að samrunaskrá var metin fullnægjandi þann 9. nóvember 2023.

Sáttaviðræður milli Festis og Samkeppniseftirlitsins um möguleg skilyrði vegna kaupa Festis á öllu hlutafé Lyfju hf. hófust svo í apríl síðastliðnum. Fram kom í tilkynningu frá Festi í dag að sátt hefði verið undirrituð og að Festi verði nú heimilt að framkvæma samrunann, með því að taka við rekstri Lyfju og dótturfélaga þess.

Í tilkynningunni segir að sátt Festi við Samkeppniseftirlitið feli í aðalatriðum í sér eftirfarandi þætti:

  • Festi skuldbindur sig til að tryggja að ráðningarsamningar á milli Lyfju og lyfjafræðinga sem starfa hjá félaginu innihaldi ekki ákvæði um samkeppnisbann eða aðrar samkeppnishömlur.
  • Festi skuldbindur sig til að tryggja rekstrarlegan aðskilnað vegna starfsemi Heilsu ehf. („Heilsa“). Í því felst m.a. að Heilsa skal áfram rekið sem sjálfstæður lögaðili og öll starfsemi félagsins, viðskiptaleg ákvörðunartaka og dagleg stjórnun þess verði aðskilin frá starfsemi annarra dótturfélaga Festi. Jafnframt tekur sáttin til þess að rekstur Heilsu fari fram í húsnæði sem aðskilið verður frá starfsemi tiltekinna dótturfélaga Festi og að aðgreining sé einnig tryggð með aðgangsstýringu að tölvu- og upplýsingakerfum Heilsu. Festi verður þó heimilt að veita Heilsu skilgreinda stoðþjónustu enda fari veiting slíkrar þjónustu ekki gegn markmiðum sáttarinnar. Þá er kveðið á um nánar tilgreind skilyrði varðandi skipan stjórnar Heilsu.
  • Festi skuldbindur sig til að tryggja að Heilsa selji þeim smásöluaðilum sem eftir því leita vörur í heildsölu á viðskiptalegum grunni. Verður Heilsu skylt að gæta jafnræðis og hlutlægni gagnvart þeim smásöluaðilum sem kaupa vörur af félaginu í heildsölu. Þá er Heilsu skylt að halda trúnað um upplýsingar er varða viðskiptavini þess og gæta þess að viðkvæmar upplýsingar fari ekki til annarra félaga í samstæðu Festi eða til keppinauta viðskiptamanna Heilsu.
  • Skilyrði varðandi Heilsu, sbr. punkta 2 og 3 að framan, falla úr gildi að fimm árum liðnum frá undirritunardegi sáttarinnar, 14. júní 2024.

Nánar verði upplýst um framgang viðskiptanna um leið og tilefni er til.


Tengdar fréttir

Festi undir­ritaði samning um kaup á Lyfju

Samningur um kaup smásölufyrirtækisins Festi á öllu hlutafé í Lyfju var undirritaður í dag. Í kaupunum er heildarvirði Lyfju metið á 7,8 milljarða króna en endanlegt heildarvirði og kaupverð mun ráðast af skuldastöðu Lyfju við afhendingu ásamt gengi hlutabréfa í Festi á þeim tíma.

Viðræður vegna kaupa á Lyfju að hefjast

Samkeppniseftirlitið hefur fallist á beiðni Festi um að hefja sáttaviðræður um möguleg skilyrði vegna kaupa félagsins á öllu hlutafé Lyfju hf. Gert er ráð fyrir að viðræður hefjist í vikunni. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×