Skoðun

Forsetapróf

Auður Guðna Sigurðardóttir skrifar

Þakkir til Heimis og samstarfsfólks hans á Stöð tvö fyrir kappræðuþátt í aðdraganda forsetakosninga. Hann var gagnlegur fyrir mig, svo mjög að ég skipti yfir í annan frambjóðanda en ég hafði hugsað mér að styðja. Heimir og hans fólk tók fólkð í smápróf sem var bæði skemmtilegt og dapurlegt. Dapurlegt af því leyti að einstaka frambjóðandi gat ekki svarað einföldum spurningum úr Íslandssögu sem kennd er í barnaskóla. Fólk getur verið ákaflega blint á það sem það hefur fram að færa. Auðvitað þarf forseti Íslands að vera þokkalega að sér í sögu lands og þjóðar og bókmenntum okkar. Það væri ekki boðlegt að svarið við spurningum um uppáhaldsbók væri Almanak Þjóðvinafélagsins eða jafnvel markaskráin hversu gagnleg og áhugaverð sem þessi rit eru.

Það er góð tilfinning að geta verið stoltur af framgöngu forsetans okkar á innlendum sem erlendum vettvangi. Ég held að það hafi gert okkur gott sem þjóð þegar Vigdís fór í opinberar heimsóknir og við fengum að fylgjast með og dást að henni í sjónvarpi. Hún talaði auðvitað Norðurlandatungumál eftir því sem við átti. Að forsetinn talaði ensku í Danmörku eða Skandinavíu væri vægast sagt óviðeigandi.

Hlýleg og falleg framkoma er mikilvæg en ekki alveg nóg þegar um embætti forseta Íslands er að ræða.

Höfundur er eldri borgari fyrir löngu.




Skoðun

Sjá meira


×