Lífið

Segir hjálminum að þakka að hann sé á lífi

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Ramsay lenti í svæsnu reiðhjólaslysi í vikunni.
Ramsay lenti í svæsnu reiðhjólaslysi í vikunni. Getty/X

Stjörnukokkurinn og Íslandsvinurinn Gordon Ramsay minnir fylgjendur sína á að hjóla ávallt með hjálm í nýrri færslu á X. Hjálmurinn hafi bjargað honum þegar hann lenti í hættulegu reiðhjólaslysi í Connecticut-ríki í Bandaríkjunum í vikunni. 

„Mig langar að deila mikilvægum skilaboðum með ykkur. Þið vitið hvað mér finnst gaman að hjóla, en í vikunni lenti ég í mjög óheppilegu slysi. Og því fylgdi mikið áfall. Ég er í rauninni bara heppinn að vera enn á lífi,“ segir Ramsay í myndbandsfærslu á X.

Hann segist þakklátur læknum og hjúkrunarfræðingum sem litu eftir honum á sjúkrahúsinu en hann kunni hjálminum, sem hann segir hafa bjargað lífi hans, mestu þakkirnar. 

„Við verðum að nota hjálm. Það skiptir ekki máli hversu stutt þú ert að hjóla, hversu dýrir hjálmar eru. Þeir eru það allra mikilvægasta,“ segir kokkurinn í myndbandinu.

Hann segist hafa sloppið við beinbrot og önnur meiri háttar meiðsli en hann væri „örlítið marinn og liti út eins og marin kartafla,“ eins og sjá má í myndbandinu. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×