Skoðun

Stað­reyndirnar um upp­byggingu Heidelberg í Þor­láks­höfn

Þorsteinn Víglundsson skrifar

Umræða um fyrirhugaða uppbyggingu Heidelberg í Þorlákshöfn hefur verið áberandi undanfarnar vikur. Það er eðlilegt enda um stórt verkefni á marga vegu. Verkefnið mun skila árlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda við sementsframleiðslu sem nemur allt að 1,2 milljónum tonna á ári. Það er um 40% af árlegri losun okkar Íslendinga að stóriðju og landnotkun undanskilinni. Verkefnið er því eitt stærsta loftlagsverkefni sem unnið er að hér á landi um þessar mundir, ef frá er skilið fyrirætlanir CarbFix í Straumsvík.

Verkefnið er einnig umfangsmikið þegar kemur að efnahagslegum áhrifum þess fyrir nærsamfélagið í Þorlákshöfn. Vel á annað hundrað varanleg störf munu skapast vegna þess og efnahagslegur virðisauki fyrir samfélagið er áætlaður 300-500 milljónir króna á ári.

Það er einnig ljóst að verkefnið hefur nokkurt fótspor í umhverfinu. Þó svo Skipulagsstofnun hafi komist að þeirri niðurstöðu í nýafloknu umhverfismati á verksmiðjunni að hér væri ekki um mengandi starfsemi að ræða er ljóst að byggingar, sér í lagi hráefnisgeymslur, verða há mannvirki. Þessi mannvirki verða því nokkuð áberandi þó svo gripið verði til ýmissa aðgerða til að draga úr ásýndaráhrifum þeirra.

Heidelberg fagnar því að umræða fari fram um verkefnið nú í aðdraganda íbúakosningar en vissulega er þá mikilvægt að rétt sé farið með staðreyndir, ekki hvað síst þegar í hlut eiga kjörnir fulltrúar með fullan aðgang að staðreyndum málsins. Það er gott og eðlilegt að fólk hafi skoðanir á stórum verkefnum og mikilvægt að allir íbúar kynni sér verkefnið vel áður en kosið verður um framtíð þess. Að gera fólki upp illan hug og setja staðreyndir í annarlegt ljós verður hins vegar ekki til annars en að vekja úlfúð og skipa fólki í fylkingar. Því miður hefur umræðan oft borið keim af pólitískum átökum þar sem staðreyndir um verkefnisins hafa verið afbakaðar eða hreinum rangfærslum haldið á lofti.

Fyrirtækið hefur lagt mikið upp úr upplýsingagjöf og gagnkvæmu samtal við Þorlákshafnarbúa og nágranna. Það getur varla talist maklegt að halda því fram að íbúafundir Heidelberg hafi verið einhliða. Tilgangur þeirra hefur einmitt verið að fá sjónarmið íbúa fram og stór hluti fundanna hefur farið í góð og gagnleg samtöl. Við höfum gert okkar besta í að svara öllum spurningum sem hafa komið fram og verkefnið hefur tekið umtalsverðum breytingum frá því að lagt var upp með það m.a. vegna þeirra áhyggja sem þar hafa komið fram.

Hér má finna stutta yfirferð yfir þær breytingar sem orðið hafa á verkefninu frá því það var fyrst kynnt. Allar þær breytingar hafa tekið mið af þeim sjónarmiðum sem fram hafa komið á íbúafundum og af hálfu bæjarstjórnar Ölfus í undirbúningsferlinu.

Ný staðsetning

Eitt stærsta áhyggjuefni íbúa á fyrsta íbúafundi sem Heidelberg hélt var staðsetning verksmiðjunnar svo nálægt byggðinni. Sú breyting sem orðið hefur þar á er að verksmiðjan hefur verið færð frá lóð við núverandi Hafnaraðstöðu í Skötubót og vestur fyrir byggðina að Keflavík. Í upphafi sóttist Heidelberg eftir allt að 50 þúsund fermetra lóð í nágrenni hafnar í Þorlákshöfn og var af hálfu bæjaryfirvalda bent á lóð við Skötubótina. Verkefnið var á þessum tímapunkti alveg ómótað, þar með talið með hvaða hætti og þá hvar efnið yrði unnið. Eftir því sem þróun verkefnisins vatt fram og ákveðið var að fullvinna efnið hér á landi varð ljóst að erfitt yrði að koma verksmiðjunni fyrir á þeirri lóð sem félagið hafði fengið úthlutað.

Viðbrögð bæjarstjórnar og fyrsta íbúafundar við kynningu á verkefninu kölluðu augljóslega á endurskoðun á þessari nálgun. Því hófst könnun á því hvort unnt yrði að reisa höfn við verksmiðjuna ef hún yrði staðsett vestan við byggðina, á stærri lóð við Keflavík, sem betur hæfði umfangi verkefnisins og væri fjær byggð. Fyrstu athuganir gáfu fyrirheit um að slíkt yrði mögulegt og hefur verkefnið verið þróað áfram með þá staðsetningu sem eina valkostinn síðan. Með hliðsjón af þessari niðurstöðu var samkomulag var gert við Bæjarstjórn Ölfus í október 2023 þar sem fyrri lóðum var skilað inn og vilyrði veitt fyrir nýrri og stærri lóð við Keflavík. Sú afgreiðsla Bæjarstjórnar var samþykkt með 6 atkvæðum en einn bæjarfulltrúi sat hjá.

Meðfylgjandi mynd sýnir nýja staðsetningu verksmiðjunnar og aðra uppbyggingu sem fyrirhuguð er á svæðinu.

Efnisflutningar á landi minnkað um 80%

Í öðru lagi er varpað fram þeirri spurningu hvort verið sé að gefa afslátt af öryggi með efnisflutningum landleiðina úr Þrengslum að verksmiðju. Vísað er þar til eins þeirra skilyrða sem Bæjarstjórn Ölfus setti frekari þróun verkefnisins, þ.e. að ekki væri „unnt að hefja stórfellda efnisflutninga úr Litla-Sandfelli um núverandi veg til Þorlákshafnar“. Líkt og greinarhöfundar taka fram var þar vísað til flutnings á allt að 3 milljónum tonna af efni á ári.

Heidelberg brást við þessum athugasemdum með því að horfa til annarra mögulegra efnisnáma í sjó við Landeyjarsand. Umhverfismat slíkrar vinnslu stendur nú yfir. Er þar gert ráð fyrir að af 1,5 milljónum tonna af efni sem unnið yrði árlega kæmi um tveir þriðju hlutar þess efnis úr sjó og allt að þriðjungur úr Litla-Sandfelli. Landflutningar með efni hafa því verið minnkaðir um liðlega 80% frá fyrstu hugmyndum.

Rétt er að halda til haga í þessu samhengi að áhyggjur af miklu umfangi landflutninga snéru einnig að mögulegum og umfangsmiklum flutningum frá Vík til Þorlákshafnar. Það verkefni er ótengt verkefni Heidelberg og ekki liggur fyrir neitt frekar um þau áform.

Fjallið sem hverfur

Meginástæða þess að fyrirhugað er að reisa móbergsvinnsluna í grennd við Þorlákshöfn er gott aðgengi að móbergi, sem er náttúrulegt afsprengi jarðhræringa á svæðinu og finnst í þar í miklu magni. Heidelberg hefur gert samninga um námuréttindi í Litla-Sandfelli í Þrengslum norðaustan við Þorlákshöfn.

Námuvinnsla hófst í Litla-Sandfelli árið 1967 og er það skilgreint af sveitarfélaginu sem náma. Námuvinnsla er fylgifiskur umsvifa mannsins; vegir, húsbyggingar, hafnir og aðrir innviðir þurfa efni og ekki þarf að leita langt í nágrenni Þorlákshafnar eða annars staðar á landinu til að finna efnistökustaði og námur.

Þar gildir að vanda til verka og vinna af virðingu við náttúruna og nágranna. Stjórnvöld hafa haft þá stefnu að nýta starfræktar námur til fulls frekar en að raska jörð víða í náttúrinni. Fyrirhuguð efnistaka Heidelberg úr fellinu fellur vel að þeirri stefnu. Miðað við núverandi áform er líklegt að fjallið hverfi að miklu eða öllu leyti fyrir lok þessarar aldar. Heidelberg hyggst vanda sig við frágang og aðkomu að svæðinu svo það verði ekki lýti á umhverfinu. Það er hins vegar vert að hafa í huga að Litla-Sandfell verður áfram náma hvort sem af móbergsvinnslunni verður eða ekki.

Uppdæling sjávarefnis uppistaða efnisvinnslu

Til að draga úr álagi á vegakerfið leitaði Heidelberg að öðrum efnisnámum sem nýta mætti í verkefnið. Rannsóknir leiddu í ljós að setlög þau sem finna má í kringum Landeyjarhöfn höfðu mjög áþekka efniseiginleika og móberg úr Litla-Sandfelli. Rannsóknir Heidelberg í tengslum við yfirstandandi umhverfismat hafa einnig leitt í ljós að áhrif slíks efnisnáms yrðu að mestu staðbundin og óveruleg ef mið er tekið af umfangi svæðisins. Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér umhverfismatsskýrslu hér. Efnistökusvæðið allt sem sótt hefur verið um er 96 ferkílómetrar að stærð en áform gera ráð fyrir að árleg efnistaka fari fram innan 0,5 km2 svæðis á ári hverju og unnt verði að færa efnistöku til á milli ára, svo lágmarka megi staðbundin áhrif hennar.

Í umræðu um efnistökuna hefur réttilega verið bent á að umrætt svæði hafi meðal annars að geyma mikilvæg hrygningarsvæði. Í því samhengi er þó rétt að halda því til haga að þau liggja meðfram öllu Suður- og Vesturlandi og fyrirhugað vinnslusvæði því agnarsmátt í hlutfalli af svæðinu öllu. Rannsóknir á lífríki á svæðinu benda jafnframt til að það sé fábrotið á fyrirhuguðu vinnslusvæði. Kröftugir straumar og setflutningar auk mikils álags vegna öldugangs benda enn fremur til þess að nærsvæði fyrirhugaðrar vinnslu sé ekki fallið til hrygningar. Engu að síður eru fjölmargar mótvægisaðgerðir fyrirhugaðar við vinnsluna til að lágmarka möguleg áhrif hennar á fiskistofna auk þess sem virk vöktun er fyrirhuguð á áhrifum hennar.

Í umræðunni hefur einnig verið lýst áhyggjum af öryggi Landeyjarhafnar sem og öryggi lagna til og frá Vestmannaeyjum. Það er alveg ljóst að dælingu efnis verður háttað þannig að lögnum á svæðinu mun engin hætta stafa af. Jafnframt hefur Heidelberg haft náið samráð við Vegagerðina um hvernig koma megi í veg fyrir að efnisvinnsla muni hafa nokkur neikvæð áhrif á samgöngur um Landeyjarhöfn. Mögulega gæti efnisdælingin haft þar einhver jákvæð áhrif en í það minnsta benda rannsóknir okkar ekki til þess að það verði nokkrum vandkvæðum bundið að hátta vinnslu með þeim hætti að hún hafi ekki áhrif á rekstur hafnarinnar.

Jákvæð loftlagsáhrif

Í upphafi greinarinnar nefndi ég að verkefni Heidelberg væri eitt stærsta loftlagsverkefni sem unnið væri að hérlendis. Rétt er að gera aðeins betur grein fyrir þeirri staðhæfingu. Sementsframleiðsla ber ábyrgð á um 8% losunar af mannavöldum í heiminum í dag. Sement er eitt algengasta og útbreiddasta byggingarefni í heiminum sökum styrks steinsteypu og langs endingartíma steyptra mannvirkja. Mikilvægt er því að sementsframleiðendur leiti allra leiða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í framleiðslunni.

Verkefni Heidelberg í Þorlákshöfn er einmitt dæmi um eina leið til að minnka kolefnisspor sements verulega. Með því að nota malað móberg í stað sementsgjalls má minnka kolefnisspor sements verulega þar sem kolefnisspor hins fyrrnefnda (með allri vinnslu og flutningi til Evrópu) , er aðeins um 4% af kolefnisspori sementsgjalls. 1,5 milljónir tonna af móbergi myndi því spara um 1,2 milljónir tonna í losun kolvítsýrings út í andrúmsloftið á ári hverju. Það samsvarar liðlega 40% af árlegri losun hér á landi sem telst á beina ábyrgð Íslands á ári hverju. Áhrifin eru því umtalsverð.

Hægt er að kynna sér enn betur jákvæð loftlagsáhrif verkefnisins í umhverfismatsskýrslu um verksmiðjuna hér.

Verðmæt störf og auknar tekjur fyrir sveitarfélagið

Eftir stendur að hér er um mjög áhugavert loftlagsverkefni sem skila mun miklum efnahagslegum ávinningi fyrir nærsamfélagið í Ölfusi. Gert er ráð fyrir að í tengslum við framleiðsluna muni skapast 70-90 vel launuð störf af ýmsu tagi. Þörf verður á rekstrarmenntuðu fólki, tæknifræðingum, verkfræðingum, vélfræðingum, rafvirkjum og sérhæfðu starfsfólki í rekstur ýmis konar tækjabúnaðar auk bílstjóra, áhafna á dæluskip og svo mætti áfram telja. Þessi störf yrðu góð viðbót við ört dafnandi atvinnulíf í Þorlákshöfn. Í umræðu á Alþingi nýlega var því haldið fram að aðeins þriðjungur starfsmanna myndi koma úr sveitarfélaginu en afgangur starfsmanna, þ.m.t. allir sérfræðingar, myndu koma annars staðar frá. Hvar ræðumaður hafði þær upplýsingar veit ég ekki en stefna Heidelberg er að sem flest störf verði mönnuð með íbúum Ölfus.

Heildarfjárfesting er áætluð um 70 milljarðar króna að hafnaruppbyggingu meðtalinni. Ljóst er að þessar fjárfestingar munu skapa sveitarfélaginu umtalsverðar tekjur á hverju ári í formi fasteignagjalda auk útsvars af launum starfsfólks. Þá gerir samkomulag okkar við Ölfus ráð fyrir því að höfnin verði afhent sveitarfélaginu án endurgjalds þegar allur stofnkostnaður hennar hefur verið greiddur upp.

Hversu umfangsmikil er námavinnslan?

Nokkuð hefur verið rætt um umfang þeirrar námavinnslu sem verkefnið mun hafa í för með sér. Umhverfismat framleiðslunnar í Þorlákshöfn miðaðst við 1,5 milljónir tonna á ári eða um 1 milljón rúmmetra á ári. Það er vafalítið umtalsvert í huga margra. Til að setja slíka vinnslu í eitthvert samhengi er rétt að hafa í huga að árlega eru um 10-15 milljónir rúmmetra af jarðefnum unnin hér á landi, fyrst og fremst til vegagerðar og mannvirkjagerðar. Verkefni Heidelberg er því innan við 10% aukning á árlegu efnisnámi hér á landi.

Setja mætti verkefnið í annað samhengi sem snýr að tíðri eldvirkni hér á landi. Þannig er áætlað að hraunrennsli vegna eldvirkni í Fagradalsfjalli hafi numið um 150 milljónum rúmmetra og hraunrennslið frá Holuhrauni er áætlað um milljarður rúmmetra. Árlegt efnisnám hér á landi má sín lítils í þeim samanburði. Ísland er jarðfræðilega ungt land í stöðugri mótun líkt og reynslan sýnir.

Í tengslum við fyrirhugað efnisnám við Landeyjarhöfn er ágætt að hafa í huga að á sama tíma og umhverfismat gerir ráð fyrir allt að 70-80 milljón rúmmetra heildarefnistöku á 30 ára tímabili nam áætlað öskufall vegna eldgossins í Eyjafjallajökli um 200-300 milljón rúmmetrum. Stór hluti þess ýmist féll eða skolaðist á endanum til sjávar á þessu sama svæði.

Ég hvet áhugasama eindregið til að kynna sér málið betur á heimasíðu verkefnisins, www.heidelberg.is. Þar er meðal annars að finna umhverfismatsskýrslur sem verkefninu tengjast, skipulagsuppdrátt þann sem kosið verður um í komandi íbúakosningum og ýmsan annan fróðleik um verkefnið.

Höfundur er talsmaður Heidelberg á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×