Fótbolti

Dagur Dan tekinn af velli í hálf­leik eftir að liðið varð manni fleiri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagur Dan Þórhallsson var fórnarlamb taktískar breytingar hjá Orlando City í hálfleik.
Dagur Dan Þórhallsson var fórnarlamb taktískar breytingar hjá Orlando City í hálfleik. Getty/Andrew Bershaw

Dagur Dan Þórhallsson var í byrjunarliði Orlando City en spilaði þó aðeins fyrri hálfleikinn í 2-2 jafntefli á móti Charlotte í MLS-deildinni í nótt.

Charlotte komst í 1-0 í fyrri hálfleiknum eða eftir aðeins tólf mínútna leik en liðið missti líka mann af velli með rautt spjald á 38. mínútu.

Óscar Pareja, þjálfari Orlando City ákvað að taka Dag af velli í hálfleik og setja inn sóknarmanninn Martin Ojeda. Dagur var að spila sem hægri bakvörður.

Orlando jafnaði með marki Duncan McGuire á 64. mínútu en lenti svo aftur undir þrettán mínútum síðar. Facundo Torres tryggði liðinu stig með jöfnunarmarkinu níu mínútum fyrir leikslok.

Dagur Dan var að byrja sjötta leikinn í röð en í annað skiptið í síðustu þremur leikjum var hann tekinn af velli í hálfleik.

Orlando City hefur ekki náð að vinna í síðustu fimm leikjum sínum en síðasti sigurleikurinn kom á móti San Jose Earthquakes 19. maí. Liðið er nú í fjórtánda og næstsíðasta sæti í Austurdeildinni með átján stig í átján leikjum.

Nökkvi Þeyr Þórisson kom inn á sem varamaður og spilaði í tuttugu mínútur þegar St. Louis City tapaði 3-0 gegn Colorado Rapids í MLS deildinni í nótt.

St. Louis klikkaði á víti þegar liðið gat jafnað metin í 1-1. Þetta var sjöundi leikurinn í röð sem St. Louis liðið nær ekki að fagna sigri. Liðið er í tólfta sæti Vesturdeildar með átján stig eftir átján leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×