Innlent

Faðir hand­tekinn á nær­buxunum á heimili sonar

Jón Þór Stefánsson skrifar
Sérsveit Ríkislögreglustjóra handtók manninn. Myndin er úr safni.
Sérsveit Ríkislögreglustjóra handtók manninn. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Íslenska ríkið þarf að greiða manni 170 þúsund krónur vegna handtöku sérsveitarinnar á honum árið 2022. Þetta var niðurstaða Héraðsdóms Reykjavíkur. Að mati dómsins var handtakan sjálf lögmæt en vegna þess að maðurinn varð fyrir skaða vegna hennar á hann rétt á bótum.

Þegar handtakan fór fram var sonur mannsins grunaður um að hafa skotið á bíl mannsins, föður síns. Nágrannar sonarins höfðu upplýst lögreglu um að hann væri að haga sér undarlega. Lögreglan hafi skoðað bíl föðurins og séð að öll hægri hlið hans væri sundurskotin. Hann hafi setið í bílnum og upplýst lögreglu um að sonurinn hefði skotið bílinn, sem væri ónýtur og til stæði að henda honum.

Sonurinn á hins vega að hafa sagt að „hópur af svertingjum“ hefði ekið hjá og skotið á bílinn með vélbyssum.

Var við það að sofna og náði ekki að klæða sig

Faðirinn sagði við lögreglu að sonurinn ætti fleiri skotvopn en skráð væru í skotvopnaskrá. Þá væri skotvopnaleyfi hans útrunnið. Honum þætti mikilvægt að lögreglan myndi leita og leggja hald á skotvopn sonarins. Í kjölfarið fékk lögregla heimild til að leita í iðnaðarhúsnæði, geymslum og bílum sonarins.

Lögreglan fékk sérsveitina til að aðstoða sig við að framfylgja úrskurðinum. Óskað var eftir því að sérsveitin myndi handtaka soninn og tryggja ástand í húsnæðinu, til dæmis með því að handtaka og færa alla á vettvangi í handjárn. Það var meðal annars gert til að tryggja að ekki væri hægt að spilla sönnunargögnum.

Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur.Vísir/Vilhelm

Þegar þessi lögregluaðgerð fór fram var faðirinn staddur á heimili sonarins. Hann sagði að sér hafi brugðið mjög við þess aðgerð, en hann hafi legið í rúmi í nærbuxum einum fata og verið að sofna þegar hann hafi hrokkið upp við mikinn hávaða. Greinilegt væri að lögreglan væri komin í húsið.

Áður en honum hafi tekist að komast fram úr og klæða sig hefðu sérsveitarmenn ruðst inn í herbergið, að sögn mannsins með fyrirgangi og ógnandi látbragði. Hann hafi verið handjárnaður og tilkynnt um að hann hefði réttarstöðu sakbornings en honum var ekki kynnt sakarefnið.

Í stefnu mannsins sagði að hann hafi verið látinn liggja á grúfu, nánast nakinn, á meðan húsleit fór fram, en hún hafi í heildina tekið rúma klukkustund.

Lögreglan vildi meina að hann hafi fengið sæng eða teppi til að hylja sig og í fyrstu legið uppi í rúmi og síðan sest upp.

Hrekkur upp þegar hann heyrir í þyrlu

Maðurinn vildi meina að hann fyndi fyrir áhrifum handtökunnar. Hann hrykki upp þegar hann heyrði í þyrlu þar sem það minnti hann á þyrlu Landhelgisgæslunnar sem hafi sótt sérsveitarmennina sem tóku þátt í aðgerðinni.

Hann krafðist einnar milljónar króna í miskabætur frá ríkinu. Íslenska ríkið, fyrir hönd lögreglunnar, féllst á bótaábyrgð, en krafðist þess að upphæðin myndi lækka verulega.

Að mati dómsins var handtakan lögmæt og ekki hægt að fallast á að sérsveitarmennirnir hafi valdið ólögmætri meingerð gegn frelsi, firði, æru eða persónu mannsins. Dómurinn komst, líkt og áður segir, að þeirri niðurstöðu að ríkið skyldi greiða manninum 170 þúsund krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×