Þetta kemur fram á vef Ríkisútvarpsins. Tölvuárásin var gerð síðdegis á sunnudag, og olli því að mbl.is, vefur Morgunblaðsins, lá niðri í nokkrar klukkustundir. Þá stöðvuðust útsendingar útvarpsstöðvarinnar K100, auk þess sem fleiri kerfi útgáfufélagsins Árvakurs lágu niðri.
Ríkisútvarpið hefur eftir Guðmundi Arnari Sigmundssyni, forstöðumanni netöryggissveitarinnar Cert-is, að lokað hefði verið fyrir erlenda umferð um vefinn, sem væri algengt ráð til að verjast svokölluðum álagsárásum. Slíkar árásir ganga út á að búa til álag á vefsíður til þess að gera þær óvirkar.
Þá er haft eftir Karli Blöndal, aðstoðarritstjóra Morgunblaðisins, að ekki komi til greina að greiða tölvuþrjótum á vegum rússneska hakkarahópsins Akira lausnargjald fyrir gögn í gíslingu. Hann hafi ekki viljað staðfesta hvort þrjótarnir hefðu haft uppi slíka kröfu.
„Ég vil ekkert fara út í það. Það eina sem ég vil segja að þetta eru náttúrulega óþokkar og þrjótar,“ hefur RÚV eftir Karli.