Innlent

Fram­kvæmdum ljúki „vonandi fyrir verslunar­manna­helgi“

Heimir Már Pétursson og Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifa
Katrín hvetur ökumenn til að hægja á sér þegar ekið er nærri framkvæmdunum.
Katrín hvetur ökumenn til að hægja á sér þegar ekið er nærri framkvæmdunum. Vísir

Vegagerðin stefnir að því að ljúka framkvæmdum við gatnamót Kringlumýrar- og Miklubrautar fyrir verslunarmannahelgi, þannig að umferð tefjist ekki lengur við þessi fjölförnustu gatnamót landsins.

Heimir Már ræddi við Katrínu Halldórsdóttur verkfræðing hjá Vegagerðinni við téð gatnamót í Kvöldféttum. Þegar hefur verið lokið við fyrsta framhjáhlaupið í framkvæmdunum. 

„Við teljum þetta vera umferðaröryggi til mikilla bóta, sérstaklega fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur,“ segir Katrín. Nú sé verið að helluleggja þríhyrningsmiðeyjurnar sem skilja að framhjáhlaupið og breyta útfærslunni á aðgengi gangandi og hjólandi vegfarenda. 

„Og við vorum að setja hér gangbrautir og upphækkun og bæta lýsingu til þess að gera þennan vegfarendahóp sýnilegri ökumönnum bifreiða til dæmis.“

Aðspurð segist Katrín vonast til að framkvæmdir við gatnamótin klárist sitthvoru megin við verslunarmannahelgi. „Verktakinn er sirka tvær vikur með hvert framhjáhlaup,“ segir Katrín, því fyrsta sé lokið og það næsta klárist á morgun. Á fimmtudag hefjist verktakinn handa við það þriðja. 

„Vonir standa að þetta klárist fyrir verslunarmannahelgi en lokafrágangur gæti dregist fram í miðjan ágúst,“ segir Katrín. Um fimmtíu þúsund ökutækjum er ekið um gatnamótin á hverjum degi og Katrín biður þá ökumenn um að sýna tillitssemi vegna rasks á umferð vegna framkvæmdanna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×