Í tilkynningu frá Lyfjaveri kemur fram að fjöldi dæma séu um að apótek hafi neyðst til að skammta lyfinu til viðskiptavina í einn mánuð í senn.
„Þetta hefur valdið notendum lyfsins verulegum vandræðum og fólk hringir örvæntingafullt í fjölda apóteka í leit að Ozempic skammti,“ er haft eftir Hákoni Steinssyni framkvæmdastjóra Lyfjavers.
Fram kemur að tækifæri hafi opnast með stærri pakkningum af lyfinu sem innihaldi þrjá áfyllta lyfjapenna, sem er þriggja mánaða skammtur af lyfinu.
Hákon segir að lyfjaskortur hafi verið umtalsvert vandamál undanfarin ár og að það sé áskorun að tryggja nægar birgðir af lyfjum svo sjúklingar verði ekki lyfjalausir.
„Við leggjum gríðarlega vinnu í að tryggja það að einstaklingar í lyfjaskömmtun hjá okkur fái þau lyf sem þau hafa í skömmtun. Okkur hefur tekist vel til og má segja að einstaklingar í skömmtun séu undir ákveðnum verndarskildi, en það þarf stöðugt að vakta biðlista lyfjaheildsala, auka birgðir lyfja sem verða reglulega illfáanleg, birgja okkur upp af öðrum samheitalyfjum eða flytja lyfin sjálf inn,“ er haft eftir Hákoni.