Körfubolti

Reese í sögu­bækurnar og Clark með enn einn stór­leikinn

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Angel Reese hefur byrjað af krafti í WNBA-deildinni.
Angel Reese hefur byrjað af krafti í WNBA-deildinni. Melissa Tamez/Getty Images

Angel Reese skráði sig í sögubækur WNBA-deildarinnar í körfubolta í nótt þegar hún afrekaði það að vera með tvöfalda tvennu í tíunda leiknum í röð. Það hefur aldrei verið gert áður. Þá átti Caitlin Clark sannkallaðan stórleik í sigri Indiana Fever á stórliði Phoenix Mercury.

Leikar héldu áfram í WNBA-deildinni í nótt og halda nýliðarnir tveir, Reese og Clark, áfram að stela fyrirsögnunum. Reese gat skráð sig í sögubækurnar þar sem hún hafði skilað tvöfaldri tvennu í níu síðustu leikjum sínum. 

Enginn leikmaður í sögu deildarinnar hefur afrekað það tíu leiki í röð þangað til Reese tókst það í nótt. Því miður skilaði afrekið ekki sigri en Reese og stöllur í Chicago Sky töpuðu með átta stiga mun fyrir Minnesota Lynx, lokatölur 62-70. Reese skoraði 10 stig og tók 16 fráköst. 

Stórleikur næturinnar var hins vegar viðureign Phoenix og Indiana, þar mættust goðsögnin Diana Taurasi og nýliðinn umtalaði Caitlin Clark. Brittney Griner einnig leikmaður Mercury og má segja að þarna hafi gamli skólinn mætt nýja skólanum.

Taurasi (19 stig) og Griner (24 stig) gerðu sitt en það dugði ekki til að þessu sinni þar sem Clark bauð upp á sannkallaðan stórleik, hún var aðeins einu frákasti frá þrefaldri tvennu. 

Clark skoraði 15 stig, gaf 12 stoðsendingar og tók 9 fráköst í leiknum sem Fever vann með sex stiga mun, lokatölur 82-88.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×