Fótbolti

Disney stjórinn að kaupa fót­bolta­fé­lag með eigin­konunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Skólastýran Willow Bay og eiginmaður hennar, Bob Iger, framkvæmdastjóri Disney, ætla að dýfa sér inn í fótboltaheiminn og hjálpa kvennafótboltanum í Bandaríkjunum að vaxa.
Skólastýran Willow Bay og eiginmaður hennar, Bob Iger, framkvæmdastjóri Disney, ætla að dýfa sér inn í fótboltaheiminn og hjálpa kvennafótboltanum í Bandaríkjunum að vaxa. Getty/Mike Coppola

Skólastýran Willow Bay og eiginmaður hennar, Bob Iger, framkvæmdastjóri Disney, eru sögð vera að ganga frá samningi um kaup á bandaríska kvennafótboltafélaginu Angel City FC.

Angel City er kannski þekktast fyrir það að í eigandahópi félagsins eru heimsþekktar leikkonur, kvenfjárfestar og íþróttakonur.

Parið mun kaupa meirihluta í félaginu af Alexis Ohanian, stofnanda Reddit og eiginmanns Serenu Williams. Hann á stærstan hluta í félaginu.

Félagið, sem er með aðstæður í Los Angeles, er metið á 250 milljónir Bandaríkjadali. Það er talið að félagið myndi hækka í virði og upp í þrjú hundruð milljón dali eftir kaupin.

Angel City vill fá konu sem eiganda og Willow Bay verður í fararbroddi samkvæmt tilboði hjónananna. Hún starfar sem skólastjóri í USC Annenberg fjölmiðlaskólanum.

Stofnendur félagsins voru Kara Nortman, leikkonan Natalie Portman og Julie Uhrman en meðal fjárfesta í því voru leikkonan Eva Longoria, umrædd Serena Williams og bandarísku knattspyrnugoðsagnirnar Abby Wambach og Mia Hamm.

Angel City FC spilar heimaleiki sína á BMO Stadium sem er nálægt miðbæ Los Angeles. Það er með meira en sextán þúsund ársmiðahafa.

Það hefur verið mikið um breytingar á eigendahópi þeirra fjórtán félaga sem skipa NWSL deildina. Næstum því öll félögin hafa fengið nýja eigendur eða nýja stóra fjárfesta á síðustu fjórum árum. Peningafólk sýnir deildinni meiri áhuga og það ætti að ýta undir vöxt hennar á næstu misserum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×