Viðskipti innlent

Harpa vill létta lund veðurbugaðra höfuðborgarbúa

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Hildur hvetur önnur fyrirtæki sem sjá sér það fært að leggja sitt af mörkum til að létta lund borgarbúa.
Hildur hvetur önnur fyrirtæki sem sjá sér það fært að leggja sitt af mörkum til að létta lund borgarbúa. Vísir/Samsett

Harpa ætlar að bjóða höfuðborgarbúum sem komast ekki austur á firði upp á tónleikamiða á helmingsverði og ókeypis mímósur vegna leiðindaveðursins sem herjar á borgina um helgina. Hildur Ottesen Hauksdóttir kynningarstjóri Hörpunnar segist finna fyrir bugun höfuðborgarbúa og hvetur önnur fyrirtæki til að létta lund þeirra.

Hildur segir hugmyndina hafa fæðst í grámóskulegri bílferðinni í vinnuna í morgun.

„Hugmyndin fæddist í leiðinni í vinnuna í morgun í þessu veðurfari sem er núna. Fólk er pínu bugað maður finnur það. Við finnum fyrir því í Hörpu að þegar það er verra veður þá fáum við fleiri útlendinga. Þá fórum við að hugsa hvort við gætum ekki gert eitthvað fyrir borgarbúa sem eru heima um helgina,“ segir hún í samtali við fréttastofu.

Harpa hefur því ákveðið að bjóða upp á tveir-fyrir-einn-tilboð á hádegistónleikum um helgina sem eru hluti af nýrri tónleikaröð Hörpu. Ásamt því verður einnig tveir-fyrir-einn-tilboð á gagnvirku upplifunarsýninguna Hringáttu. Samhliða því býður veitingastaðurinn Hnoss á jarðhæð Hörpu upp á ókeypis mímósu með brönsmatseðli.

„Við erum að hugsa að reyna að létta lundina. Þetta er það sem við getum gert. Svo fórum við að hugsa þetta lengra. Það væri gaman ef við gætum búið til einhverja stemningu fyrir því að jafnvel fleiri gætu gert eitthvað,“ segir Hildur.

„Það væri gaman ef fleiri fyrirtæki sæju sér fært að taka þátt í að gleðja höfuðborgarbúa í þessari gulu veðurviðvörun.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×