Fótbolti

Patrice Evra fékk fangelsis­dóm fyrir að yfir­gefa eigin­konu sína

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Patrice Evra lagði skóna á hilluna árið 2018 en gerðist ekki mikill fjölskyldumaður í kjölfarið.
Patrice Evra lagði skóna á hilluna árið 2018 en gerðist ekki mikill fjölskyldumaður í kjölfarið. Qian Jun/MB Media/Getty Images

Patrice Evra hlaut eins árs skilorðsbundinn fangelsisdóm í Frakklandi fyrir að yfirgefa og vanrækja eiginkonu sína og börn.

Evra er fyrrum leikmaður franska landsliðsins, Manchester United og fleiri liða. Hann var dæmdur fyrir að yfirgefa fyrrum eiginkonu sína, Söndru, og tvö börn þeirra frá 1. maí 2021 til 28. september 2023.

Það gerði hann eftir að hafa haldið framhjá Söndru með dönsku fyrirsætunni Margaux Alexandra. Þau tóku saman en skilnaðurinn var ekki frágenginn fyrr en 28. september 2023.

Evra fjölskyldan þegar allt lék í lyndi. Sandra Evra hélt á Maona Evra og kyssti Patrice Evra. Lenny litli Evra leit upp til foreldra sinna.Jean Catuffe/Getty Images)

Sandra fór fram á 969.000 evrur í miskabætur og ógoldið meðlag en honum var gert að greiða henni 4.000 evrur í miskabætur og 2.000 evrur í málskostnað.

Evra áfrýjaði málinu samstundis og bar það fyrir sig að hafa borgað fyrir íbúð, sumarhús með sundlaug og lánað allt að tvær milljónar evra til framfærslu.

Nathalie Dubois, lögmaður Söndru, sagðist vona „að þessi dómur fái Patrice Evra til að skilja loksins að hann er ekki yfir lögin hafinn og maður getur ekki bara yfirgefið konu sína og börn á einni nóttu. Enn frekar í ljósi þess að þau kynntust þegar þau voru 15 ára og hún hefur stutt hann allan fótboltaferilinn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×