Sport

Rafíþrótta-Ólympíuleikar verði haldnir í Sádi-Arabíu næstu tólf ár

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Alþjóðaólympíunefndin hélt kynningarviðburð fyrir rafíþróttir í Singapúr á síðasta ári. Þar var meðal annars keppt í sýndarveruleika-karate.
Alþjóðaólympíunefndin hélt kynningarviðburð fyrir rafíþróttir í Singapúr á síðasta ári. Þar var meðal annars keppt í sýndarveruleika-karate. Yong Teck Lim/Getty Images

Alþjóðaólympíusambandið hefur gert samkomulag við Sádi-Arabíu um að Ólympíuleikarnir í rafíþróttum verði haldnir þar í landi næstu tólf árin. Stefnt er að því að fyrstu leikarnir fari fram á næsta ári.

Samkomulag er í höfn milli Alþjóðaólympíusambandsins (IOC) og Ólympíusambands Sádi-Arabíu (NOC) en beðið er eftir samþykki framkvæmdastjórnar, sem mun funda þann 25. júlí, daginn áður en Ólympíuleikarnir í París verða settir.

Samstarfið gildir til næstu tólf ára, og greint er frá því að Ólympíuleikar í rafíþróttum verði haldnir „reglulega“ en ekki kemur fram hvort fjögurra ára reglunni verði fylgt eftir.

Vinna við skipulagningu og undirbúning viðburðarins á næsta ári mun hefjast þegar í stað, sem gefur í skyn að samböndin séu nokkuð viss um samþykki framkvæmdastjórnar.

„Með samkomulaginu við NOC í Sádi-Arabíu fulltryggjum við að Ólympíuandinn verði í hávegum hafður, þá sérstaklega þegar litið er til fjölbreytni í leikjavali, jafnrétti kynjanna og áherslu á unga fólkið,“ sagði Thomas Bach, forseti IOC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×