Sport

Vann Laugavegshlaupið fjórða árið í röð

Smári Jökull Jónsson skrifar
Andrea kemur í mark en hún var að vinna Laugavegshlaupið í fjórða sinn í röð.
Andrea kemur í mark en hún var að vinna Laugavegshlaupið í fjórða sinn í röð. Laugavegurinn

Laugavegshlaupið fór fram í dag en þetta er í tuttugasta og áttunda sinn sem hlaupið er haldið. Alls tóku yfir 500 hlauparar þátt í ár.

Laugavegshlaupið er 55 km utanvegahlaup en Laugavegurinn tengir saman Landmannalaugar og Þórsmörk á sunnanverðu hálendi Íslands. Göngugarpar eru venjulega nokkra daga á leið sinni um Laugaveginn en hröðustu hlaupararnir fara leiðina á 4-5 klukkustundum.

Íþróttbandalag Reykjavíkur er umsjónaraðili mótsins en hlaupið var við nokkuð erfiðar aðstæður í dag þar sem vindasamt var á hlaupaleiðinni.

Þorsteinn Roy og Sigurjón Ernir sem enduðu í tveimur efstu sætunum.Laugavegurinn

Hlaupadrottningin Andrea Kolbeinsdóttir kom fyrst í mark í kvennaflokki en þetta er fjórða árið í röð sem hún fer með sigur úr býtum. Andrea kom í mark á tímanum 4:33:20 en Halldóra Huld Ingvarsdóttir varð önnur rúmum tuttugu mínútum á eftir Andreu. Íris Anna Skúladóttir varð í þriðja sæti.

Andrea Kolbeinsdóttir var ansi þreytt í endamarkinu.Laugavegurinn

Í karlaflokki kom Þorsteinn Roy Jóhannsson fyrstur í mark en þetta er í fyrsta sinn sem hann fer með sigur af hólmi í Laugavegshlaupinu. Þorsteinn Roy hljóp leiðina á tímanum 4:13:08 en Sigurjón Ernir Sturluson varð annar og Grétar Örn Guðmundsson þriðji.

Þorsteinn Roy kemur hér í mark.Laugavegurinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×