Körfubolti

Grát­legt tap niður­staðan og bar­átta um sæti í A-deild fram­undan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Almar Orri í leik kvöldsins.
Almar Orri í leik kvöldsins. FIBA

Íslenska drengjalandsliðið í körfubolta skipað leikmönnum 20 ára og yngri mátti þola grátlegt eins tap gegn Belgíu í kvöld. Með sigri hefði Ísland komist í 8-liða úrslit Evrópumótsins sem nú fer fram í Póllandi sem og tryggt tilverurétt sinn í A-deild.

Leikurinn var gríðarlega jafn í upphafi en frábær annar leikhluti Íslands þýddi að liðið var átta stigum yfir í hálfleik. Íslenska liðinu tókst ekki að byggja ofan á það í upphafi síðari hálfleiks og Belgíu tókst að minnka muninn.

Í fjórða leikhluta var munurinn litill sem enginn en Belgía hænuskrefi á undan. Íslenska liðið fékk hins vegar tækifæri til að vinna leikinn með síðustu sókn leiksins en ofan í vildi boltinn ekki og Belgía fagnaði því ógurlega þegar flautan gall, lokatölur 74-73 í háspennuleik.

Ísland leikur nú um 9. til 16. sætis á mótinu en neðstu tvö liðin falla niður í B-deild. Strákarnir fá ekki langan tíma til að sleikja sárin en liðið mætir Serbíu strax á morgun.

Almar Orri Atlason var stigahæstur hjá Íslandi í kvöld með 19 stig ásamt því að taka fimm fráköst. Þar á eftir komu Tómas Valur Þrastarson og Ágúst Goði Kjartansson með 18 stig hvor. Tómas Valur tók einnig 7 fráköst og gaf 4 stoðsendingar.

Tómas Valur í leik kvöldsins.FIBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×