Þorvaldur var til viðtals í Bítínu á Bylgjunni á morgun þar sem hann ræðir uppfært hættumat Veðurstoufnnar þar sem fram kemur að gera þurfi ráð fyrir þeim möguleika að hraun geti komið upp innan bæjarmarka Grindavíkur.
„Mér finnst það mjög ólíklegt og nánast engar líkur á því. Það gæti komið kannski eitthvað svipað því sem gerðist 14. janúar. Mér finnst langlíklegast að við fáum endurtekningu á því sem hefur verið að gerast, að kvikan komi upp í upphafi við Stóra-Skógfell og þar verði mesta virknin í upphafi. Síðan lengist gossprungan til norðurs og suðurs, hún opnast eins og blævængur,“ segir hann.
Undanhlaup geti náð miklum hraða
Þorvaldur segist ekki eiga von á því að sprungan teygi sig lengra til suðurs en að Hagafelli.
Hann tekur jafnframt fram að á yfir tíuþúsund ára eldhræringatímabili á Reykjanesinu hefur aldrei gosið innan núverandi bæjarmarka Grindavíkur.
„Af hverju ætti það að fara að taka upp á því núna?“ spyr Þorvaldur sig.
Hann segir fólki ekki stefnt í neina hættu svo lengi sem það sé ekki beinlínis ofan í sprungunni en að þó beri að hafa varann á því hægara sé sagt en gert að komast undan öflugu hraunflæði.
„Alveg í upphafi getur hraunflæði verið mjög hratt og það getur farið það hratt að menn hlaupa ekkert undan því. Þetta er kannski kílómeter á klukkustund og þetta er mjög úfið svæðið. Þetta er ekki eins og að hlaupa á malbiki. Maður fer ekki hratt yfir og svo einstaka undanhlaup í svona dæmi geta farið á hraða sem er einhverjir tugir kílómetra á klukkustund,“ segir Þorvaldur.
Gjósi minnst einu sinni enn
Hann segist eiga von á því að það gjósi á röðinni að minnsta kosti einu sinni enn. Þolmörk kvikusöfnunarinnar segir hann vera í kringum tíunda ágúst en segir að það gæti vel gosið fyrir þann tíma.
„Í augnablikinu finnst mér líklegt að við fáum eitt gos í viðbót, svo er það bara spurning hvert framhaldið er,“ segir hann.