Óeirðirnar brutust út þegar hópur manna gerði aðsúg að mosku skömmu eftir minningarstundina í gærkvöldi. Talið er að þar hafi verið á ferð stuðningsmenn hægriöfgasamtakanna Enska varnarbandalagsins (EDL). Átta lögreglumenn slösuðust alvarlega í átökunum samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Merseyside.
Sautján ára gamall piltur stakk fjölda barna og tvo fullorðna sem reyndu að koma þeim til varnar á dansnámskeiði með Taylor Swift þema á mánudag. Þrjár stúlkur á aldrinum sex til níu ára eru látnar og fleiri liggja þungt haldnir á sjúkrahúsi.
Rangar fullyrðingar um árásarmanninn í dreifingu
Lögreglan segir að öfgamönnunum hafi hlaupið kapp í kinn vegna rangra fullyrða á samfélagmiðlum um að árásin tengdist íslamskri öfgahyggju.
Árásarmaðurinn er fæddur í Cardiff í Wales en einhverjir enskir fjölmiðlar hafa sagt hann son innflytjenda frá Rúanda. Breska ríkisútvarpið BBC segir piltinn ekki hafa nein þekkt tengsl við íslam.
Yfirvöld og lögregla höfðu áður varað almenning við því að dreifa ekki óstaðfestum fréttum af árásinni. Engu að síður hafa rangar fullyrðingar um að pilturinn sé hælisleitandi með arabískt nafn farið sem eldur í sinu í kreðsum hægriöfgamanna og útlendingahatara.
„Það hafa verið svo miklar vangaveltur og tilgátur um stöðu sautján ára gamals karlmanns sem er í haldi lögreglu og sumir notfæra sér það til þess að koma með ofbeldi og glundroða á götur okkar. Við höfum þegar sagt að sá handtekni fæddist í Bretlandi og vangaveltur hjálpa engum á þessari stundu,“ segir Alex Goss, aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Ræna sorg aðstandenda og bæjarins
Öfgamennirnir réðust á moskuna, köstuðu múrsteinum, flösku, flugeldum og steinum. Margir þeirra voru hettu- eða grímuklæddir. Þegar lögreglumenn reyndu að skakka leikinn rifu mótmælendurnir meðal annars múrsteina úr garðveggjum og sóttu sér ruslatunnur sem þeir hentu í lögreglumenn sem reyndu að verja sig með óeirðarskjöldum.
Patrick Hurley, þingmaður Southport úr Verkamannaflokknum, lýsti mótmælendunum sem „ölvuðum óþokkum“ og að óeirðunum hefði verið stýrt af aðkomumönnum. Sakaði hann þá um að notfæra sér dauða þriggja barna í pólitískum tilgangi. Þeir hafi „rænt“ sorg bæjarins og fjölskyldna þeirra.
„Þetta fólk vanvirðir algerlega fjölskyldur þeirra látnu og særðu og vanvirða algerlega bæinn,“ sagði Hurley í útvarpsviðtali.
Fordæmdi hann ennfremur að lögreglumenn sem daginn áður hafi hugað að særðum fórnarlömbum árásarinnar hafi mátt sæta grjótkasti í gærkvöldi.