Skoðun

Hryllir við til­hugsuninni

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

„Við skulum orða þetta svona. Þrátt fyrir að flestir sjómenn hafi orðið fyrir gríðarlegum vonbrigðum með útlit samningsins hryllir þá flesta við þeirri tilhugsun að ganga aftur í Evrópusambandið og myndu ekki styðja neitt sem myndi leiða til þess,“ sagði Mike Park, framkvæmdastjóri Scottish White Fish Producers Association, við fréttavefinn Politico.eu í janúar 2021 spurður um sýn brezkra sjómanna á samning ráðamanna í Bretlandi við sambandið um útgöngu landsins úr því (Brexit) með tilliti til sjávarútvegsmála.

Haft er enn fremur eftir forsvarsmönnum brezkra sjómanna bæði í áðurnefndri frétt og fleirum að óánægja í röðum þeirra með útgöngusamninginn snúist ekki um andstöðu við útgönguna sem slíka heldur með hvaða hætti staðið hafi verið að henni. Þannig hafi brezk stjórnvöld samið af sér við Evrópusambandið. Einkum með því að láta undan kröfu sambandsins um aðlögunartímabil þar sem aflaheimildir í brezkri efnahagslögsögu væru ekki frá fyrsta degi eingöngu fyrir brezka sjómenn og að samið yrði á ný að því loknu.

Hérlendir Evrópusambandssinnar eins og Ole Anton Bieltvedt hafa gert mikið úr óánægju brezkra sjómanna með útgöngusamning Bretlands við Evrópusambandið. Hins vegar má velta því fyrir sér hvað það segi um sambandið að þrátt fyrir þá óánægju vilji þeir alls ekki ganga þar aftur inn. Þetta rímar aftur til að mynda ágætlega við niðurstöður skoðanakönnunar í sumar þess efnis að fleiri vildu að staðið yrði betur að málum í kjölfar útgöngunnar úr sambandinu en þeir sem vildu ganga aftur í sambandið.

Horfur í brezku efnahagslífi jákvæðar

Fyrir helgi ritaði Ole grein á Vísir.is og vísaði þar meðal annars til fréttar í Viðskiptablaðinu þess efnis að útganga Bretlands úr Evrópusambandinu hefði sogað lífskraftinn úr brezka hagkerfinu. Vildi Ole meina að þar væri verið að vísa í Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ummælin voru hins vegar höfð eftir formanni samtaka Evrópusambandssinna í Bretlandi. Tilefnið var skýrsla frá sjóðnum um stöðu brezkra efnahagsmála þar sem einkum var skírskotað til hagvaxtar sem þó er á hliðstæðum nótum eða meiri en víða innan evrusvæðisins.

Horfur í brezkum efnahagsmálum að mati AGS eru hins vegar ágætlega jákvæðar eins og lesa má um í nýjustu skýrslu sjóðsins 8. júlí. „Hagkerfið nálgast mjúka lendingu samhliða meiri hagvaxtaraukningu en gert hafði verið ráð fyrir í kjölfar vægs tæknilegs samdráttar á árinu 2023. Verðbólga hefur farið ört lækkandi og nánast náð verðbólgumarkmiði eftir að hafa verið í tveggja stafa tölu á síðasta ári þar sem miklar hækkanir á orkuverði hafa gengið til baka og áhrif frá aðhaldssamari peningastefnu á eftirspurn hafa skilað sér.“

Hóflegum hagvexti sé spáð í ár, eða 0,7%, og 1,5% á því næsta samhliða hagstæðari efnahagsaðstæðum. Óvissa í kjölfar útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu fari áfram minnkandi samhliða bættu fyrirkomulagi á landamærunum að Írlandi, endurskoðun á regluverki sem Bretar hafi erft frá Brussel og harðfylgi brezks útflutningsiðnaðar. Útflutningur til sambandsins sé hins vegar enn að aðlagast nýjum aðstæðum. Með öðrum orðum sé staða mála í brezku efnahagslífi jafnt og þétt að þróast í réttar áttir.

Hlutdeild ESB hefur dregizt hratt saman

Helzta vandamál Bretlands í tengslum við útgönguna úr Evrópusambandinu tengist íþyngjandi regluverki sem Bretar erfðu frá sambandinu og hefur ekki verið skorið niður eins og til stóð til þess að auka samkeppnishæfni landsins nema að litlu leyti sem komið hefur ekki sízt niður á hagvexti. Hins vegar eru hagvaxtartölur ófárra evruríkja annað hvort á svipuðum slóðum eða verri. Þetta á ekki sízt við um Þýzkaland sem fyrr segir þar sem hagvöxtur var -0,3% á síðasta ári og er búizt við að hann verði einungis 0,1% í ár.

Fram kemur í grein Oles að alllangt sé síðan Evrópusambandið hafi orðið „stærsti markaður heims með yfir 500 milljónir“ íbúa. Reyndar er um að ræða innan við 450 milljónir en látum það liggja á milli hluta. Íbúafjöldinn einn segir þó ekki alla söguna. Þannig er sambandið þriðji stærsti markaðurinn í dag sem hlutfall af landsframleiðslu á heimsvísu þegar leiðrétt hefur verið fyrir kaupmætti, sá mælikvarði sem gjarnan er notaður, á eftir Kína og Bandaríkjunum. Til dæmis er fjallað um þetta á vef Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Hlutdeild Evrópusambandsins var þannig tæplega 14,5% á síðasta ári á meðan hlutdeild Kína var 18,7% og Bandaríkjanna tæplega 15,6%. Við upphaf aldarinnar var sambandið vissulega enn stærsti markaður heimsins á þennan mælikvarða með rúmlega 20% hlutdeild en hefur síðan jafnt og þétt dregizt aftur úr. Fyrir 40 árum var hlutdeild Evrópusambandsins enn meiri eða tæp 26%. Þrátt fyrir að Bandaríkin séu mun fámennari en sambandið og að ríkjum þess hafi fjölgað mikið hefur þessi þróun haldið áfram.

„Endalok dýrðardaga Evrópusambandsins“

Vissulega er það þannig rétt hjá Ole að fyrir alllöngu hafi Evrópusambandið verið stærsta markaðssvæðið en sú er einfaldlega ekki lengur raunin. Forystumenn sambandsins hafa ekki séð sér annað fært á undanförnum árum en að gangast við þessum veruleika. „Frá efnahagslegum sjónarhóli horfum við fram á endalok dýrðardaga Evrópusambandsins í samanburði við það sem aðrir eru að gera,“ sagði til dæmis Jean-Claude Juncker, þáverandi forseti framkvæmdastjórnar sambandsins, í ræðu í Madrid í október 2015.

„Evrópusambandinu gengur ekki mjög vel,“ sagði Juncker enn fremur í ræðu sinni. Þannig stæði sambandið frammi fyrir efnahagslegri hnignun. Frá því að ummæli hans féllu hefur jafnt og þétt sigið á verri hliðina. Nú síðast var fjallað um hnignun innri markaðar Evrópusambandsins í skýrslu sem Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, vann fyrir framkvæmdastjórn þess og gefin var út í apríl síðastliðnum þar sem meðal annars kemur fram að sambandið hafi dregizt verulega aftur úr Bandaríkjunum.

„Hlutdeild Evrópusambandsins í heimsbúskapnum hefur dregizt saman undanfarna þrjá áratugi þar sem staða þess á meðal stærstu hagkerfa heimsins hefur versnað hratt samhliða uppgangi asískra hagkerfa. […] Jafnvel þó asísk hagkerfi séu ekki tekin inn í myndina hefur innri markaður Evrópusambandsins einnig dregizt aftur úr Bandaríkjunum. Hagkerfin tvö voru svipuð að stærð árið 1993. Hins vegar jókst landsframleiðsla á mann um 60% í Bandaríkjunum á milli 1993-2022 en innan við 30% innan sambandsins.“

Marklaus gögn frá Evrópusambandinu?

Hvað varðar aðra grein sem Ole ritaði á Vísir.is fyrir helgi, þar sem hann mótmælti þeim orðum mínum að telja mætti nær á fingrum annarrar handar þá málaflokkar þar sem einróma samþykki ríkja Evrópusambandsins ætti enn við um með því að nefna málaflokka sem telja má einmitt nánast á fingrum annarrar handar, er athyglisvert að hann skuli hafa kosið að sleppa framhaldinu af beinu tilvitnuninni í mig þess efnis að einróma samþykki ætti hvorki við um sjávarútvegs- né orkumál sem skipta okkur Íslendinga miklu.

Vegna þess hve brösulega hefur annars gengið hjá Ole að færa haldbær rök fyrir máli sínu hefur hann ítrekað gripið til þess örþrifaráðs að vega að mér persónulega fyrir þá sök að vilja ekki ganga í Evrópusambandið. Flest hefur verið reynt í þeim efnum. Meðal annars að kalla mig hægriöfgamann og jafnvel reyna að spyrða mig við Mússólíní, reyna að gera lítið úr menntun minni og halda því fram að ég fái greitt fyrir greinaskrif mín sem ég sinni í frítíma mínum og hef ekki fengið krónu fyrir. Sem fyrr án rökstuðnings.

Ég kippi mér nú ekki mikið upp við þessa framgöngu Oles enda er hún auðvitað fyrst og fremst til marks um rökþrot. Væri málefnalegum rökum til að dreifa og málstaðurinn góður þyrfti hann vitanlega ekki að grípa til slíkra óyndisúrræða. Markmiðið er að reyna að draga úr trúverðugleika þess sem fyrir verður fyrst ekki er hægt að hrekja rök hans. Í mínu tilfelli rök sem koma einkum frá Evrópusambandinu. Sé hins vegar ekki að marka gögn þaðan eru það fyrir utan annað varla meðmæli með inngöngu í sambandið.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×