Þetta segir Bergvin Snær Andrésson, sem er í vettvangsstjórn. Fréttamaður náði tali af honum rétt áður en fregnir bárust af því að bíll hefði fundist sem gæti tilheyrt ferðamönnunum.
Landslagið síbreytilegt
Bergvin segir að verið sé að leita á stöðum sem björgunarsveitunum hafa verið bent á, í ýmsum hellum og fleiri stöðum. Það sé alveg inn í myndinni að fólkið gæti verið í helli sem aldrei hefur fundist eða hefur nýlega myndast.

„Það er bara allt í myndinni, það er náttúrulega hreyfing á svæðinu, það er snjór og drulla sem er á svæðinu, hér hafa verið rigningar, hiti og fleira þannig landslagið er að breytast,“ segir Bergvin.
Hann segir skilyrðin til leitar ekki hafa verið þau bestu í nótt, þyrlan hafi ekki getað athafnað sig vegna mikillar þoku.
Nú er bjartara yfir, og þyrlan hefur verið á sveimi yfir svæðinu ásamt fjölda dróna frá björgunarsveitunum. Bergvin segir landslagið erfitt yfirferðar, og meiri áhersla sé á drónaleit en með jeppum.

Hann vill koma þökkum á framfæri til húshaldara á staðnum, sem hafa veitt björgunarsveitum skjól og mat, og einnig til allra sem hafa aðstoðað í leitinni, og nefnir landverði, staðarkunnuga, fjallakónga og fleiri.
Eftir hádegi bárust fregnir af því að bíll hefði fundist sem gæti tilheyrt týndu ferðamönnunum. Leitarhundar voru ræstir út við leitina.