Skoðun

Fjöl­breytni þrífst best í frjálsu sam­fé­lagi

Bjarni Benediktsson skrifar

Það er hluti af sjálfsmynd Íslendinga að standa öðrum framar þegar kemur að jafnrétti, mannréttindum og frelsi fólks til að vera það sjálft. Við erum stolt af því að hér geti fólk verið öruggt í eigin skinni, elskað þann sem það hugnast og sótt fram á sínum forsendum.

Evrópusamtök hinsegin fólks birtu í vor svokallað Regnbogakort yfir ríki Evrópu, þar sem Ísland er í 2. sæti og hefur farið upp um sextán sæti síðan 2018. Þetta er árangur sem við getum verði stolt af.

Hinsegin dagar eru árvisst tilefni til að fagna framförunum, en rifja á sama tíma upp að þær eru ekki sjálfsagðar. Árangurinn er fyrst og fremst fenginn með kröftugri baráttu fólks og félagasamtaka úti í samfélaginu, en sömuleiðis stjórnmálafólki sem þorði að taka skrefin.

Í frjálsu og opnu samfélagi hefur fólk frelsi til að tjá sig án ótta við ofsóknir. Slíkt umhverfi er eftirsóknarvert, skapar samheldni og virkjar fólk til þátttöku. Í samfélagi þar sem virðing er borin fyrir fjölbreytninni er líklegra að sköpunarkraftur og framtakssemi blómstri. Þannig verða lífskjörin betri fyrir alla.

Við höfum á síðustu árum beitt okkur af sífellt meiri þunga í baráttu fyrir réttindum hinsegin fólks á alþjóðavettvangi. Ísland var meðal fyrstu ríkja innan Sameinuðu þjóðanna til að leggja þau fram sem sérstakt áherslumál á vettvangi mannréttindaráðsins. Málefni hinsegin fólks voru sömuleiðis lykilatriði í formennsku Íslands í Evrópuráðinu.

Sagan hefur enda kennt okkur að það sem fengist hefur getur horfið hratt sé það ekki varðveitt. Sums staðar hefur lítið fengist yfir höfuð. Í Úganda, þróunarsamvinnuríki Íslands, voru nýverið sett lög sem leggja hörð viðurlög við samkynhneigð. Veruleiki sem virðist flestum fjarstæðukenndur hér heima. Slík þróun sýnir svo ekki verður um villst þörfina á að leggja okkar af mörkum við að vinna sjálfsögðum mannréttindum stuðning.

Við þekkjum það allt of vel úr ráðstjórnarríkjum hvernig stjórnmálamenn úr þekktum áttum vilja ekki aðeins skammta fólki eigur og veraldleg gæði, heldur mannréttindin sömuleiðis. Sagan hefur hins vegar kennt okkur að fjölbreytnin þrífst best þar sem sjálfstæði og frelsi einstaklingsins er í öndvegi.

Gleðigangan er viðburður sem sannarlega gefur sumrinu lit. Til hamingju með daginn!

Höfundur er forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×