Þýskir miðlar segja að rannsakendur málsins telji að maðurinn, sem bjó í Póllandi síðast þegar sást til hans, hafi verið einn af köfurunum sem settu sprengjuhleðsur á gasleiðslurnar sem lágu frá Rússlandi til Þýskalands í Eystrasaltinu og voru sprengdar í loft upp í septembermánuði 2022.
Þýsk yfirvöld hafa ekki viljað tjá sig um málið en stórir fjölmiðlar í Þýskalandi fjalla um málið í dag og vísa í ónafngreinda heimildamenn.
Pólski saksóknarinn hefur heldur ekki viljað tjá sig um hvort mannsins sé leitað þar í landi.
Í blaðinu Spiegel í morgun er því raunar haldið fram að yfirvöld telji víst að maðurinn sé ekki lengur í Póllandi.
Tvennt til viðbótar, maður og kona sem einnig eru frá Úkraínu og eru einnig með kennararéttindi í köfun, hafa einnig verið rannsökuð vegna málsins en handtökuskipanir á hendur þeim hafa þó ekki verið gefnar út að svo stöddu.
Enn er á huldu hver skipulagði og fjármagnaði skemmdarverkin og hafa Rússar og Vesturlönd kennt hvor öðrum um að hafa staðið þar að baki.