Innlent

Rauðu örvarnar leika listir sínar á Ís­landi

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rauðu örvarnar, Red Arrows, á æfingu fyrr á árinu í tilefni 60 ára afmælis flugsveitarinnar.
Rauðu örvarnar, Red Arrows, á æfingu fyrr á árinu í tilefni 60 ára afmælis flugsveitarinnar. Royal Air Force

Rauðu örvarnar, listflugsveit breska flughersins, hefur viðdvöl á Íslandi um helgina á leið sinni vestur yfir Atlantshaf. Áformað er að sveitin leiki listir sínar yfir Keflavíkurflugvelli síðdegis á laugardag, þótt flugsýning hérlendis sé ekki á formlegri dagskrá sveitarinnar.

Listflugsveitin, sem samanstendur af níu þotum, er á leið í sýningarför til Kanada í tilefni 100 ára afmælis kanadíska flughersins. Jafnframt fagna Rauðu örvarnar 60 ára afmæli í ár og er fyrirhugað að sveitin haldi á annan tug flugsýninga í Kanada næsta mánuðinn.

Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu kemur fram að Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra verði meðal annarra viðstödd á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þegar Rauðu örvarnar leiki listir sínar á laugardag 17. ágúst. Ekki er gefin upp nákvæm tímasetning en fulltrúum fjölmiðla er boðið að mæta á svæðið laust fyrir klukkan 15 og áætlað að dagskrá verði lokið um klukkan 17:30.

Í tilkynningu ráðuneytisins er rifjað upp að Rauðu örvarnar hafi áður komið til Íslands og sýnt listir sínar, til dæmis árin 2002 og 2008. Í heimsókninni árið 2002 flaug flugsveitin lágt yfir Reykjavík. Þá muna eflaust margir sem komnir eru yfir miðjan aldur eftir magnaðri flugsýningu Rauðu örvanna yfir Reykjavíkurflugvelli í ágústmánuði árið 1970.

Þess má geta að flugsveit konunglega breska flughersins, Royal Air Force, er með aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli um þessar mundir vegna loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins sem nú stendur yfir. Sú flugsveit samanstendur af fjórum F-35 orrustuþotum og 180 liðsmönnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×