Ráðuneytið segir að áætlaður lendingartími Rauðu örvanna sé á tímabilinu 16 til 17:30. Frá Isavia fengust þær upplýsingar að von væri á flugsveitinni til Keflavíkur klukkan 15:50. Hún myndi aðeins hafa skamma viðdvöl á Íslandi og gert væri ráð fyrir brottför klukkan níu í fyrramálið. Í flugturninum áttu menn ekki von á öðru en hefðbundinni lendingu.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra hyggst taka á móti flugsveitinni. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu í fyrradag kom fram að Þórdís Kolbrún yrði viðstödd á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli þegar „rauðu örvarnar leika listir sínar“. Núna virðist ólíklegt að ráðherrann fái að sjá mikla loftfimleika.
Rauðu örvarnar koma hingað frá Bretlandi á leið sinni vestur um haf. Listflugsveitin, sem samanstendur af níu þotum, er á leið í mánaðarlanga sýningarför um Kanada í tilefni 100 ára afmælis kanadíska flughersins.