Skoðun

Loftslagsaðgerðir í sátt við líf­fræði­lega fjöl­breytni

Rannveig Magnúsdóttir og Guðrún Schmidt skrifa

Mikil umræða er búin að vera í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum um skógrækt til kolefnisbindingar í mólendi í Saltvík við Húsavík. Gróið berjaland var plægt upp þrátt fyrir viðvörunarorð sérfræðinga hjá Náttúrustofu Norðvesturlands. Prófessor í landnýtingu segir að þegar horft er til langs tíma sé lággróður, líkt og sá sem plægður var burt í Saltvík, betri til bindingar á kolefni en skógur. Slík landsvæði ættu að njóta verndar samkvæmt Bernarsamningnum. Formaður Fuglaverndar telur þar að auki að ýmis lög hafi verið brotin því m.a. var landið plægt upp á varptíma. Landvernd tekur undir þessa gagnrýni og kallar eftir víðtækri endurskoðun á skógrækt í tengslum við kolefnisbindingu.

Íslensk náttúra og alþjóðlegir samningar

Hlutverk Landverndar er m.a. að standa vörð um íslenska náttúru og samtökin leggja áherslu á að staðið sé við alþjóðlega samninga. Það kemur skýrt fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að loftslagsaðgerðir verða að taka tillit til náttúruverndar og líffræðilegrar fjölbreytni (lífbreytileika). Með Heimsmarkmiðunum, Parísarsamkomulaginu og nú síðast Kunming-Montréal stefnunni um líffræðilega fjölbreytni hafa þjóðir heims skilgreint hvað þarf að gera til að leiða heimsbyggðina á braut sjálfbærrar þróunar, koma í veg fyrir hrun vistkerfa og samfélaga og stuðla að endurreisn náttúru. Vistkerfisnálgun (e. Ecosystem approach) er sú aðferðafræði sem Samningur Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni mælir með í skipulagi, en þar er stuðlað að samræmi milli verndunar vistkerfa og sjálfbærrar nýtingar með jafnrétti að leiðarljósi. Endurheimt vistkerfa er sú alþjóðlega viðurkennda aðferð sem vísindasamfélagið hefur bent á að sé árangursríkust í bæði kolefnisbindingu og vernd líffræðilegrar fjölbreytni. Síðast en ekki síst, þá er áratugurinn 2021-2030 helgaður endurheimt vistkerfa hjá Sameinuðu þjóðunum.

Ákall um endurskoðun, samvinnu og skipulag

Til að ná sátt um landnýtingu og aðgerðir til kolefnisbindingar þarf að fara í víðtæka endurskoðun á málefninu. Prófessor í vistfræði hefur áður skorað á yfirvöld og sveitarfélög að endurskoða aðgerðaráætlanir sínar og skipulag um landnýtingu. Landvernd tekur undir þessa áskorun og hefur áhuga á að taka virkan þátt í slíkri vinnu. Aðferðafræði vistkerfisnálgunar myndi henta afar vel í þeirri vegferð.

Höfundar eru sérfræðingar hjá Landvernd.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×